Fótbolti

Fyrsta ABBA-vítakeppnin fór fram í gær og fræg þula Lineker rættist einu sinni enn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Lineker tekur víti í leik með Tottenham í bikarúrslitaleik á Wembley.
Gary Lineker tekur víti í leik með Tottenham í bikarúrslitaleik á Wembley. Vísir/Getty
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, er að gera tilraun með nýja útgáfu af vítaspyrnukeppnum í úrslitakeppni sautján ára landsliða karla og kvenna og fyrsta slíka vítakeppnin fór fram í undanúrslitum EM U-17 kvenna í gær.

BBC vitnuðu, í frétt sinni um þessa söguleg vítakeppni, í fræga þulu Gary Lineker, fyrrum landsliðsmanns Englands og umsjónarmanns Match Of The Day. „Fótboltinn er einföld íþrótt. 22 menn elta boltann í 90 mínútur og í lokin vinnur alltaf Þýskaland,“ sagði Lineker á sínum tíma.

Það þótti tilvalið að rifja þetta upp fyrst að það voru Þjóðverjar sem unnu fyrstu ABBA vítakeppnina í Príbram í Tékklandi í gær.Þýsku stelpurnar í sautján ára landsliðinu komust þá í úrslitaleik Evrópumótsins eftir 3-2 sigur á Noregi í vítaspyrnukeppninni.

Norska liðið komst reyndar í 2-0 í vítaspyrnukeppninni og þrjár fyrstu spyrnur Þjóðverja klikkuðu. Þær þýsku lifðu það hinsvegar af, skoruðu úr þremur síðustu vítum sínum og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum á móti Spáni.

Nýtt fyrirkomulag á vítaspyrnukeppnum er þannig að liðin skiptast á að taka fyrri spyrnuna í hverri umferð sem þýðir að hvort lið tekur alltaf tvö víti í röð. A byrjar svo tekur lið B tvær vítaspyrnur í röð og svo lið A tvær í röð þar til að bæði lið hafa tekið fimm spyrnur.

Þessi sögulega vítaspyrnukeppni í Tékklandi fór alla leið í bráðabana þar sem Þýskaland tryggði sér sigurinn með því að skora úr sjöttu spyrnu sinni. Norðmenn höfðu þá klikkað á tveimur vítum í röð,  þeirri síðustu í venjulegu vítakeppninni og þeirri fyrstu í bráðabana.

Það er hægt að sjá svipmyndir úr leiknum með því að smella hér.

Vítaspyrnukeppnin gekk þannig fyrir sig:

Þýskaland (A) 3-2 Noregur (B)

1. Wieder, Þýskalandi - varið

2. Bjelde, Noregi - varið

3. Sunde, Noregi - mark (0-1)

4. Rackow, Þýskalandi - varið

5. Lohmann, Þýskalandi - stöng

6. Tvedten, Noregi - mark (0-2)

7. Birkeli, Noregi - varið

8. Kössler, Þýskalandi - mark (1-2)

9. Nüsken, Þýskalandi - mark (2-2)

10. Bjørneboe, Noregi - varið

11. Haugland, Noregi - varið

12. Brunner, Þýskalandi - mark (3-2)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×