Innlent

Keilir vill tveggja brauta kennsluflugvöll og byggja í Vogunum

Svavar Hávarðsson skrifar
Flugbrautirnar tvær, ef af verður, verða um 1,2 kílómetrar að lengd.
Flugbrautirnar tvær, ef af verður, verða um 1,2 kílómetrar að lengd. Mynd/Keilir
Sveitarfélaginu Vogum hefur borist fyrirspurn frá Keili – miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, um afstöðu sveitarfélagsins til byggingar flugvallar fyrir æfinga- og kennsluflug á Stranda­heiði. Ef af þessum æfingaflugvelli á Reykjanesi yrði myndi hann anna öllu kennslu- og æfingaflugi á suðvesturhorninu og víðar ef áhugi væri fyrir hendi.

Bæjarráð Voga tók málið fyrir á fundi í síðustu viku og vísaði því til skoðunar hjá umhverfis- og skipulagsnefnd sveitarfélagsins. Eins og kunnugt er rekur Keilir flugakademíu þar sem í boði er nám í einkaflugi, atvinnuflugi, flugþjónustu og flugumferðarstjórn, auk náms í flugvirkjun.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er um tvær flugbrautir að ræða og er hvor um sig 1,2 kílómetrar að lengd – eins yrði um aðstöðu fyrir kennsluvélar að ræða, verkstæði og geymslur.

Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum
Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, segir að æfingaflugvöllur krefjist eðlilega breytinga á aðalskipulagi sveitarfélagsins, og óformleg fyrirspurn hefur verið send til eiganda landsins sem hér um ræðir. Lengra sé málið ekki komið á þessu stigi.

Spurður hvernig áformin horfi við bæjarstjóranum við fyrstu sýn segir Ásgeir að ekkert eins og þetta hafi komið til tals áður og í skipulagsvinnu síðustu ára hafi slíkt aldrei verið ámálgað. Í því ljósi falli hugmyndin ekki að skipulagi dagsins í dag.

„Að öðru leyti líst mönnum ekkert illa á þessa hugmynd – hvorki til né frá,“ segir Ásgeir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×