Innlent

Sigmundur Davíð þarf að flytja ef hann vill Reykjavík

Snærós Sindradóttir skrifar
Sigmundur Davíð er búsettur í Garðabæ en er með lögheimili á Egilsstöðum.
Sigmundur Davíð er búsettur í Garðabæ en er með lögheimili á Egilsstöðum. Vísir/Vilhelm
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður er ekki kjörgengur í Reykjavík. Í Fréttablaðinu í gær var greint frá því að áhrifafólk innan Framsóknarflokksins hvetti Sigmund nú til þess að leiða lista Framsóknarmanna í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Sigmundur er með lögheimili á Hrafnabjörgum 3 á Egilsstöðum. Hann hefur þó ekki raunverulega búsetu þar en færði lögheimili sitt þangað þegar til stóð að hann byði sig fram í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 2013. Sigmundur Davíð er oddviti Framsóknarflokksins í kjördæminu.

Í frétt Fréttablaðsins í gær sagði Sigmundur að hann gerði ráð fyrir því að halda sig við landsmálin þrátt fyrir að málefni borgarinnar væru einnig áhugaverð og mikilvæg. „Það er ekkert launungarmál að málefni sveitarfélaganna og skipulagsmál skipa stóran sess í mínum huga, en þau eru líka nátengd landsmálunum og það er fjölmargt annað á sviði landsmálanna sem mér finnst mikil þörf á, og tækifæri til, að bæta,“ segir Sigmundur.

Fari svo að Sigmundur færi lögheimili sitt aftur að heimili sínu er hann þó ekki heldur kjörgengur, þar sem hann er búsettur í Garðabæ. Í lögum um kosningar til sveitarstjórna segir að hver sá sé kjörgengur í sveitarstjórn sem hafi kosningarétt í sveitarfélaginu en það hefur Sigmundur ekki.

Oddviti Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík núna er Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir. Í samtali við Fréttablaðið segist hún ekki vera búin að ákveða hvort hún gefi kost á sér aftur á lista. Hún ætli sér að taka ákvörðun um og eftir sumarið. Hið sama gildir um Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, sem er í öðru sæti listans. Hún tekur ákvörðun með sumrinu. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×