Íslenski boltinn

Uppbótartíminn: Umferð flautumarkanna | Myndbönd

Ásgeir Sigurgeirsson tryggði KA stig í Kaplakrika.
Ásgeir Sigurgeirsson tryggði KA stig í Kaplakrika. vísir/ernir
Annarri umferð Pepsi-deildar karla lauk í gær með fjórum leikjum.

Hverjir áttu góðan dag og hverjir erfðan dag? Hvernig var umræðan á Twitter? Vísir gerir hér upp umferðina á léttum og gagnrýnum nótum.

Valur er eina lið deildarinnar með fullt hús stiga. Valsmenn unnu Skagamenn 2-4 á útivelli en ÍA hefur fengið á sig átta mörk í fyrstu tveimur umferðunum.

Nýliðarnir fara vel af stað. Ásgeir Sigurgeirsson bjargaði stigi fyrir KA í Kaplakrika með flautumarki og Andri Rúnar Bjarnason tryggði Grindavík sigur á Víkingi R. með öðru slíku.

Þriðja flautumarkið í umferðinni skoraði Pálmi Rafn Pálmason þegar hann tryggði KR sigur í Ólafsvík. Þá vann Fjölnir 1-0 sigur á lánlausum Blikum og Stjarnan rústaði ÍBV.

Umfjöllun og viðtöl úr öllum leikjum umferðarinnar:

ÍA 2-4 Valur

FH 2-2 KA

Víkingur R. 1-2 Grindavík

Víkingur Ó. 1-2 KR

Fjölnir 1-0 Breiðablik

Stjarnan 5-0 ÍBV

Grindvíkingar hafa farið vel af stað.vísir/ernir
Góð umferð fyrir ...

... Nýliðana

Gulklæddu nýliðarnir hafa farið afar vel af stað og eru báðir með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar. KA-menn hljóta að vera sérstaklega ánægðir með uppskeruna eftir leiki gegn Breiðabliki og FH á útivelli. Grindavík náði í stig gegn Stjörnunni í 1. umferðinni og fylgdi því svo eftir með því að vinna endurkomusigur í Víkinni í gær. Nýliðarnir virka mjög sterkir og það kæmi ekkert á óvart ef þeir héldu sér báðir uppi.

... Ólaf Jóhannesson

Valsmenn eru komnir með sex sinnum fleiri stig en þeir fengu samanlagt í fyrstu tveimur umferðunum undanfarin tvö ár. Óli Jóh segist ekki þurfa fleiri leikmenn og miðað við fyrstu tvær umferðirnar hefur hann rétt fyrir sér. Dion Acoff hefur smellpassað inn í lið Vals sem er nú með ógn á báðum köntunum. Valsmönnum var spáð titilbaráttu fyrir tímabilið og miðað við frammistöðuna í fyrstu tveimur leikjunum verður það raunin í sumar.

... sóknarmenn Stjörnunnar

Stjarnan rúllaði yfir slakt lið ÍBV á sunnudaginn, 5-0. Báðir sóknarmenn Garðbæinga, Hólmbert Aron Friðjónsson og Guðjón Baldvinsson, voru á skotskónum sem hlýtur að vera sérstakt ánægjuefni fyrir alla sem að Stjörnuliðinu standa enda áttu þeir í vandræðum með að skora í fyrra. Hólmbert skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og jafnaði þar með markafjölda sinn frá því í fyrra. Hólmbert fór reyndar meiddur af velli í upphafi seinni hálfleiks en verður væntanlega ekki lengi frá. Guðjón skoraði fimmta og síðasta mark Stjörnunnar og var greinilega létt.

Vörn ÍA hefur míglekið í upphafi tímabils.vísir/andri marinó
Erfið umferð fyrir ...

... Arnar Grétarsson

Stigalausir Blikar eru í miklum vandræðum og hafa byrjað þetta tímabil eins og þeir enduðu það síðasta. Blikar voru arfaslakir gegn KA í 1. umferðinni en skárri gegn Fjölni í gær. Það dugði þó skammt. Blikarnir hafa aðeins skorað eitt mark í fyrstu tveimur leikjunum og það var skot sem Srdjan Rajkovic, markvörður KA, átti að verja. Breiðablik á í mestu vandræðum með að skapa sér færi og nýju sóknarmennirnir hafa lítið sýnt til þessa. Þótt það séu bara tvær umferðir búnar eru útlitið ekki bjart í Kópavoginum.

... vörn ÍA

Skagamenn hafa skorað fjögur mörk í fyrstu tveimur umferðunum en uppskeran er núll stig. Það er augljóst að vandamál ÍA liggur í varnarleiknum. Ármann Smári Björnsson og Darren Lough skildu eftir sig stór skörð og það stórsér á vörn Akurnesinga. Pólski miðvörðurinn Robert Menzel skoraði gegn Val í gær en virðist ekkert sérstaklega góður að verjast. Hafþór Pétursson hefur ekki fundið sig við hlið Menzels og Aron Ingi Kristinsson hefur átt í mestu vandræðum í vinstri bakverðinum. Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, þarf að skrúfa fyrir lekann í vörn Skagamanna því þeir fara ekki langt ef þeir fá á sig fjögur mörk í hverjum einasta leik.

... ÍBV

Eyjamenn voru lítil fyristaða fyrir Stjörnumenn á Samsung-vellinum á sunnudaginn. Lokatölur 5-0 og ÍBV er eina lið deildarinnar sem á eftir að skora í sumar. Það kemur lítið á óvart enda var mikið um það rætt í aðdraganda mótsins hver ætti að skora mörkin fyrir ÍBV. Verstu fréttirnar fyrir Eyjamenn voru svo þær að vörnin og Derby Rafael Carrilloberduo í markinu litu afar illa út í Garðabænum og Hafsteins Briem var sárt saknað. Vörn ÍBV verður einfaldlega að vera í lagi ef ekki á illa að fara. Liðið bjargar sér allavega ekki með leiftrandi sóknarleik.

Steven Lennon er markahæstur í Pepsi-deildinni með fjögur mörk.vísir/ernir
Skemmtilegir punktar úr Boltavaktinni:

Tryggvi Páll Tryggvason á Víkingsvelli:

„Ejub Purisevic, þjálfari Víkinga frá Ólafsvík er mættur í Víkina eftir grátlegt tap liðsins gegn KR í gær. Liðsmenn hans mæta einmitt Grindavík í næstu umferð. Gæðir sér hér á hamborgara og kaffi. Áhugaverð blanda.“

Smári Jökull Jónsson í Kaplakrika:

„Það er langt síðan liðin mættust í deildarkeppninni síðast. Það var árið 2004 á Akureyrarvelli þegar FH tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn. Heimamenn eiga því góðar minningar frá síðasta leik gegn þeim gulklæddu.“

Kristinn Páll Teitsson á Ólafsvíkurvelli:

„Hér er búið að bjóða upp á Eurovision popp, rapp og harðkjarna íslenskt rokk. Það er einhver asi yfir DJ-inum þar sem við fáum aldrei að klára lag. Þegar þetta er skrifað fer hann úr rokkinu yfir í Enrique Iglesias, eflaust til að bjóða nýju spænsku leikmennina velkomna.“

Hæstu og lægstu einkunnir umferðarinnar:

Guðjón Pétur Lýðsson, Valur - 8

Dion Jeremy Acoff, Valur - 8

Kristijan Jajalo, Grindavík - 8

Skúli Jón Friðgeirsson, KR - 8

Hilmar Árni Halldórsson, Stjarnan - 8

Jóhann Laxdal, Stjarnan - 8

Hrvoje Tokic, Breiðablik - 3

Arnþór Ari Atlason, Breiðablik - 3

Kenan Turudija, Víkingur Ó. - 3

Derby Rafael Carrilloberduo, ÍBV - 3

Umræðan á #pepsi365

Gullmarkið
Augnablikið
Bestur
Trabantinn
120 sekúndur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×