Innlent

Stóraukin útgjöld en krafa um aðhald

Sveinn Arnarson skrifar
Fjármálaáætlun er nú lögð fram í annað sinn.
Fjármálaáætlun er nú lögð fram í annað sinn. Vísir/Anton Brink
Auka á útgjöld til heilbrigðismála um fimmtung samkvæmt nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til ársins 2022 sem lögð var fyrir Alþingi í gær. Reisa á nýtt þjóðarsjúkrahús, breyta og minnka greiðsluþátttöku sjúklinga, auka sálfræðiþjónustu og stytta biðlista.

„Markmið með fjármálaáætluninni eru í grunninn fjögur,“ sagði Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, þegar hann kynnti áætlunina í ráðuneyti sínu. „Vega þarf á móti þenslu í hagkerfinu á sama tíma og stuðla þarf að sátt á vinnumarkaði. Taka á gengisstyrkingu krónunnar og jafnframt efla opinbera þjónustu og styrkja innviði samfélagsins.“

Stærstu útgjaldaliðir verða til heilbrigðismála og velferðarmála en gert er ráð fyrir að raunvöxtur útgjalda til heilbrigðismála verði 22 prósent.

Á sama tíma verða greiðslur til foreldra í fæðingaroflofi hækkaðar og bótakerfi öryrkja endurskoðað með það að markmiði að auka útgjöld og aðstoða við atvinnuleit.

Á tímabilinu munu heildarútgjöld fara úr 788 milljörðum króna árið 2018 í 857 milljarða króna árið 2022.

Í áætluninni er einnig gert ráð fyrir breytingum á tekjum ríkissjóðs. Ferðaþjónustan mun fara úr neðri þrepi virðisaukaskatts í almennt þrep um mitt næsta ár. Á sama tíma verður horft til þess að lækka tryggingagjald sem mun gagnast litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Einnig verða skattar á losun gróðurhúsalofttegunda tvöfaldaðir.

Hættumerki eru hins vegar í fjármálum hins opinbera. Efnahagsleg þensla, gengisstyrking og þung vaxtabyrði ríkisins valda því að fjármálastefna gerir ráð fyrir meiri afgangi en samþykkt var síðastliðið sumar. Þessir þrír kraftar kalla því á mikið aðhald í rekstri ríkissjóðs. Fjármálaráðherra sagði í kynningu sinni mikilvægt að ríkissjóður stæði vel að vígi ef og þegar næst kreppir að til að geta spýtt í lófana. Langtímamarkmið ríkisins er að skuldir A-hluta ríkissjóðs verði í lok gildistíma áætlunarinnar þær sömu að hlutfalli og árið 2006.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Kvöldfréttir Stöðvar 2 í beinni

Í kvöldfréttum okkar förum við ítarlega yfir það helsta í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×