Innlent

Minkur við Tjörnina í Reykjavík

Jakob Bjarnar skrifar
Minkurinn var hvergi banginn og skrattakollaðist í fuglunum á Tjörninni.
Minkurinn var hvergi banginn og skrattakollaðist í fuglunum á Tjörninni.
Minkur nokkur vörpulegur og ófeiminn náðist á mynd við Tjörnina í Reykjavík nú í morgun. Hann var hvergi banginn og langt í frá að vera styggur.

Óskar Guðbrandsson tölvunarfræðingur var þarna á ferð ásamt félaga sínum, þeir ætluðu að ná sér í kaffibolla og sáu þá minkinn sér til mikillar furðu. Þetta var um tíuleytið í morgun.

„Það voru einhverjir túristar þarna líka, hann var ekkert styggur. Hann var vörpulegur, myndarlegur og vel haldinn, karlkyns og stórt kvikindi. Miðað við árstíma,“ segir Óskar í samtali við Vísi.

Óskar lýsir þessu sem fremur skemmtilegu atviki, óvæntu í það minnsta.

„Við sáum þetta á hlaupum yfir Tjörnina, hann var á klakanum. Hann var of lítill til að vera köttur og þá áttuðum við okkur á því að þetta væri minkur. Hann fór út á litlu eyjuna og hélt svo áfram í átt að Ráðhúsinu. Þar hljóp hann að bakkanum og var að djöflast þar. Þá sér maður að fuglarnir eru allir að sameinast gegn kvikindinu. Magnað: Planet Earth-dæmi. Álftirnar uppá klakann og ætla að skoða málin líka. Svo hoppaði hann uppá bakkann og út á götu. Og þar horfðumst við í augu við hann,“ segir Óskar.

Höfuðborgarstofa birti myndband af dýrinu á Facebook. Þar má sjá minkinn spóka sig um götur Reykjavíkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×