Innlent

Salka vinnur í byggingu til móts við breska þingið: „Ég er auðvitað voðalega óttaslegin“

Birgir Olgeirsson skrifar
Salka Margrét fyrir framan breska þinghúsið.
Salka Margrét fyrir framan breska þinghúsið.
Salka Margrét Sigurðardóttir, sérfræðingur í Evrópusambandsmálum fyrir menningar- og tæknimálaráðuneyti Bretlands, starfar steinsnar frá þinghúsinu í London þar sem karlmaður var skotinn til bana á lóð breska þingsins eftir að hafa stungið lögregluþjón fyrr í dag.

Þingfundur stóð yfir þegar árásarmaðurinn er sagður hafa ekið yfir fólk á Westminsterbrú, nærri þinghúsinu, og svo á hlið þinghússins þar sem hann réðst á lögregluþjóninn.

Salka Margrét starfar í byggingu sem er til móts við þinghúsið en var við vinnu heima hjá sér þegar árásin átti sér stað.

„Ég sá fréttir af þessu og svo var sendur út tölvupóstur þar sem tilkynnt var að enginn mætti yfirgefa vinnustaðinn og var öllum gert að halda sig inni,“ segir Salka.

Hún segist hafa hringt strax í vinnufélaga sína sem sögðu þetta atvik hafa fengið á þá fyrst um sinn en svo hafi allir haldið áfram með sín störf.

Fljótlega var svo gefin út tilkynning þess efnis að allir ættu að fara heim.

Hún segir London vera stórborg þar sem allt gengur sin vanagang en vinir og vandamenn hafa hins vegar haft áhyggjur af Sölku sem hefur fengið margar fyrirspurnir í dag hvort hún sé óhult.

„Ég er auðvitað voðalega óttaslegin því maður veit ekki hvað átti sér stað og maður veit ekki hvað mun gerast næst en eins og er gengur allt sinn vanagang.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×