Freyja birti á miðvikudaginn grein á vef Ábyrgra hundaeigenda þar sem hún fer í saumana á starfsemi hundaeftirlitsins að teknu tilliti til þeirra gjalda sem hundaeigendum er gert að inna af hendi. Freyja telur alveg fyrirliggjandi að gjöldin fari í eitthvað allt annað en til þess málaflokks; þjónustu við hundaeigendur. Freyja reiknaði meðal annars það út að hundaeigendur í Reykjavík greiða 35 milljónir á ári í formi hundaleyfisgjalda, sem fer í að halda uppi hundaeftirlitinu.

Heilbrigðiseftirlitið hefur svarað grein Freyju með yfirlýsingu á vef sínum. Þar segir meðal annars: „Af þessu tilefni er nauðsynlegt að taka það skýrt fram að samþykkt Reykjavíkurborgar um hundahald er ekki sett fyrir hundeigendur sérstaklega heldur alla borgarbúa hvort sem þeir eru hundeigendur eða ekki.“
Berlín útópía hundafólks
Freyja segir þetta til marks um undarlegt viðhorf. Ekki sé verið að þjónustu hundaeigendur á nokkurn hátt. „Og þegar maður spyr er tekið fram að gjöldin séu ekki til að þjónusta hundaeigendur heldur til að þjónusta alla borgarbúa vegna þess ama, óþægindum og óþrifnaði sem hundahald veldur,“ segir Freyja. En, á síðu Félags ábyrgra hundaeigenda hefur svari heilbrigðiseftirlitsins verið svarað lið fyrir lið.

„Berlín er útópía hundafólks. Þar er allt gert fyrir hunda og hundaeigendur. Og gjöld þar renna í að byggja upp hundasvæði sem ekki er gert hér.“
Hundaeftirlit elur á fordómum
Freyja segir að sér virðist sem vinnubrögð heilbrigðiseftirlitsins reist á því að hundafólk sé illa þokkað og eigi undir högg að sækja.
„Þetta eru fordómar og gamlir fordómar frá því að hundahald var bannað. Samþykkt um hundahald hefur lítið breyst síðan hundahald var leyft.“
Freyja telur ekki orðum aukið að óánægja sé kraumandi meðal hundaeigenda með það hvernig málum sé hér háttað. Hún segir ekki liggja fyrir hversu margir hundaeigendur séu í Reykjavík og það er vegna þess hvernig skráningum sé háttað, hún sé ekki nógu góð. Í Reykjavík eru 2.600 hundar skráðir en Freyja segir að án ábyrgðar megi gera ráð fyrir því að þeir séu helmingi fleiri. Einfaldlega vegna þess að margir hundaeigendur láta undir höfuð leggjast að skrá hunda sína og greiða gjöld. Þeir sjái ekki tilganginn með því.
Hvar er þessi ritari?
Freyja segir að sér þyki athyglisvert að í yfirlýsingu heilbrigðiseftirlitsins komi fram að bókhald og rekstur hundaeftirlitsins sé algerlega aðskilið frá rekstri heilbrigðiseftirlitsins að öðru leyti. Hún á erfitt með að fá það til að ganga heim og saman vegna þess að meginverkefnið hljóti að snúa að lausagöngu hunda. Samkvæmt hennar útreikningum, en einn hundur er handsamaður að meðaltali á viku, sem þá þýðir að kostnaður við það er hálf milljón á hund.

„Við erum að borga fyrir 3 starfsmenn hundaeftirlitsins og einn þeirra er ritari. Hver er það? Það eru bara einhverjir tilfallandi ritarar heilbrigðiseftirlits sem svara fyrirspurnum eða Árni. Þarna er enginn ritari. Ef það er svo er verið að brjóta lög.“
Byrjað á góðum nótum en fljótlega fór að kárna gamanið
Freyja hefur grúskað í þessum málum frá árinu 2010. Hún segir að þær Árný þekkist ágætlega. Allt hafi þetta byrjað á góðum nótum milli Félags ábyrgra hundeigenda og svo heilbrigðiseftirlitsins. Félagið hafi verið duglegt að koma með ábendingar og hugmyndi en viðbrögðin hafi ekki verið í nokkru samræmi við góðan hug félagsmanna. „Viðbrögðin sem við höfum fengið hafa verið eins og við séum ekki neitt. Nú er svo komið að við viljum að það verði farið í saumana á þessu eftirliti. Viljum fá þetta svart á hvítt, í hvað þetta er að fara?“
Vísi tókst ekki að ná tali af Árný Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins, en samkvæmt þjónustuveri borgarinnar var hún skráð á fund þá er Vísir reyndi að fá samband við hana. Þó yfirlýsingin liggi fyrir eru ýmsar spurningar sem snúa að þessu máli útistandandi.