Innlent

Gagnrýna boðaðan niðurskurð í samgöngumálum á Vestfjörðum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vegurinn um Ódrjúgsháls í Gufudalssveit er meðal þeirra vegslóða sem stóð til að bæta
Vegurinn um Ódrjúgsháls í Gufudalssveit er meðal þeirra vegslóða sem stóð til að bæta Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Boðaður niðurskurður ríkisstjórnarinnar á samgönguáætlun er áfall fyrir fyrirtæki og almenning á sunnanverðum Vestfjörðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum.

Í tilkynningunni segir að umræddur niðurskurður komi langharðast niður á Vestfjörðum þar sem 1.200 milljónir króna sem voru á þessu ári eyrnamerktar Vestfjarðavegi um Gufudalssveit eru skornar niður að fullu, auk þess sem slegnar eru út af borðinu 400 milljónir króna sem fara áttu í vegbætur í Dynjandisheiði.

Segir jafnframt að vegna þessa kraumi samfélagið af reiði, þar sem full sátt hafi verið um að viðkomandi framkvæmdir yrði að ráðast í og beðið hafi verið eftir þeim árum saman. Þrátt fyrir að 95 prósent af leiðinni til sunnanverðra Vestfjarða sé malbikuð, þá eru þau 5 prósent sem út af standa í raun ófær og útiloka nánast flutninga með fólk og vörur.

Bent er á að fyrir kosningar hafi allir sýnt þessu skilning og stuðning og því veki furðu að hægt sé að slá framkvæmdir með þessum hætti út af borðinu. Íbúum sunnanverðra Vestfjarða líði eins og þeir hafi verið dregnir á asnaeyrunum fyrir kosningar með fyrirheitum um löngu tímabærar framkvæmdir. Íbúar muni ekki láta bjóða sér þessa niðurlægingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×