Innlent

Útbúa kennslustofur í bæjarstjórnarsal Kópavogs vegna rakaskemmda

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kársnesskóli
Kársnesskóli Vísir/Hörður
Bæjaryfirvöld í Kópavogi hafa í samráði við skólastjórnendur í Kársnesskóla ákveðið að flytja nemendur úr vesturálmu hússins á meðan á viðgerð vegna rakaskemmda í byggingu skólans stendur yfir.

Í tilkynningu frá Kópabogsbæ segir að endurbætur á húsnæði skólans við Skólagerði hafa staðið yfir í vetur vegna staðbundinna rakaskemda. Nýverið hafi þó komið í ljós að þær kunna að vera dreifðari en talið hafði verið og bendir því flest til að ráðast þurfi í umfangsmiklar viðgerðir á húsnæðinu.

Vegna þeirrar óvissu og þess hversu líklegt er að ráðist verði í umfangsmeiri viðgerðir en ráðgert hafði verið verða nemendur 2. til 4. bekkjar fluttir í húsnæði Kársnesskóla við Vallargerði. Þá verða útbúnar kennslustofur fyrir nemendur 9. og 10. bekkjar í bæjarstjórnarsal Kópavogsbæjar, á 1. hæð Fannborgar 2 . Þá verður útbúin kennslustofa í Fannborg 6. Stefnt er að því að þessir flutningar eigi sér stað þann 10. mars, þegar nemendur 9. og 10. bekkjar hafa lokið samræmd könnunarprófum.

Bæjarstjórn Kópavogs mun funda í Gerðarsafni á meðan bæjarstjórnarsalurinn verður tekinn undir kennslu. Foreldrum nemenda hefur verið sent bréf með upplýsingum um flutningana þar sem fram kemur að leitast verði við að sem allra minnst rask verði á námi nemenda við tilfæringarnar. Stefnt er að því að viðgerð við húsið verði lokið eins fljótt og auðið er.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×