Innlent

„Sjaldnast til þess fallið að stuðla að lausnum þegar tekist er á um málið fyrir opnum tjöldum“

Birgir Olgeirsson skrifar
Bryndís Hlöðversdóttir mun lögum samkvæmt boða þau Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur og Valmund Valmundsson til sáttafundar innan tveggja vikna.
Bryndís Hlöðversdóttir mun lögum samkvæmt boða þau Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur og Valmund Valmundsson til sáttafundar innan tveggja vikna. Vísir
„Þetta er nú bara brýning um það að deilan er í hörðum hnút og verkefnin eru við samningaborðið,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari um ástæðu þess að fulltrúar samninganefnda sjómanna og útgerðarmanna voru settir í fjölmiðlabann eftir að sáttafundi þeirra var slitið í húsakynnum ríkissáttasemjara fyrr í dag.

Fundurinn var boðaður klukkan eitt en sameiginlegum fundi deiluaðila var slitið á þriðja tímanum. Á fundinum brýndi Bryndís fyrir deiluaðilum að tjá sig ekki um viðræðurnar á opinberum vettvangi.

„Það er einfaldlega þannig að í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur segir að það sé háð trúnaði það sem fram fer á samningafundum þar til samningurinn hefur verið samþykktur. Það er þess vegna sem staðan er sem hún er,“ segir Bryndís í samtali við Vísi.

„Þegar deila er komin í harðan hnút þá er nú sjaldnast til þess fallið að stuðla að lausnum þegar tekist er á um málið fyrir opnum tjöldum.“

Hún segir þetta vera merki um að deilan sé flókin en verkfall sjómanna hefur staðið yfir í sjö vikur.

„Það efast engin um það. Við vitum að þegar verkfall hefur staðið yfir í svona langan tíma þá er deilan augljóslega í hnút. Það er ekkert nýtt í sjálfu sér sem verður til þess að þetta er ákveðið. Deilan er viðkvæm og búin að vera það um skeið og er í hörðum hnút. Verkefnið er það að setjast niður og tala saman við samningaborðið,“ segir Bryndís.

Hún segist enga lausn sjá í sjónmáli. Ég sé hana ekki en það er á ábyrgð deiluaðila að reyna að finna hana og þau munu halda áfram að leita leiða.“

Ekki er búið að boða nýjan sáttafund en Bryndís mun gera það lögum samkvæmt innan hálfs mánaðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×