Fótbolti

Greiðslur til leikmanna og þjálfara vegna EM námu 846 milljónum króna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Strákarnir okkar komust í átta liða úrslit á EM í Frakklandi.
Strákarnir okkar komust í átta liða úrslit á EM í Frakklandi. vísir/vilhelm

Landsliðsmenn Íslands í knattspyrnu og þjálfarar fengu greiddar 846 milljónir króna frá KSÍ vegna árangursins sem strákarnir okkar náðu í undankeppni og úrslitakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu.

Þetta kemur fram í rekstraryfirliti vegna EM sem birt er á vefsíðu KSÍ í dag ásamt ársskýrslu KSÍ sem birt er í dag, viku fyrir ársþing KSÍ sem fram fer í Vestmannaeyjum 11. febrúar.

Vísir hefur áður fjallað um þær greiðslur sem KSÍ fékk vegna árangursins. Nam hún 1,1 milljarði króna í tilfelli undankeppni EM 2016 og svo 820 milljónir til viðbótar fyrir árangur í úrslitakeppninni. Í heildina rúmur 1,9 milljarður króna.

Flug- og dvalarkostnaður landsliðsins í tengslum við Evrópumótið nam 250 milljónum króna. Greiðslur til leikmanna og þjálfara námu í heildina 846 milljónum en ekki er nánar sundurliðuð skiptingin á þeirri upphæð milli leikmanna og þjálfara.

Geir Þorsteinsson er formaður KSÍ. Í bakgrunn má sjá Lars Lagerbäck sem tók í fyrradag við starfi landsliðsþjálfara Noregs. Vísir/Daníel

Gestir kostuðu sex milljónir króna
Kostnaður KSÍ við flug og dvöl starfsmanna og stjórnarmanna nam 13,4 milljónum. Ekki kemur fram hve margir starfsmenn voru í Frakklandi en þeir voru nokkuð margir. Þá voru að sjálfsögðu með landsliðinu læknar, sjúkraþjálfarar, liðsstjórar og fleira. Fjórir landsliðsnefndarmenn voru líka á svæðinu allan tímann en áður hefur verið fjallað um hlutverk nefndarinnar hér á Vísi.

Þá kom sömuleiðis fram að stjórnarmönnum KSÍ var boðið út á leiki landsliðsins og greitt fyrir bæði flug og gistingu. Þá var mökum boðið á leikina þótt ekki væri greitt fyrir þá flug og gisting. Heildarkostnaður vegna gesta nam rúmum sex milljónum króna hjá KSÍ. 

Heildarkostnaðurinn við dvölina í Frakklandi nam því rúmlega 1,1 milljarði króna. Þá fengu íslensku félögin í sinn hlut 453 milljónir króna til skiptana. Eftir standa því 376 milljónir króna.

Rekstraryfirlitið má nálgast hér.

Uppfært 4. febrúar klukkan 14:48
Óskar Örn Guðbrandsson, upplýsingafulltrúi KSÍ, kom því á framfæri að ekki hefði verið greitt sérstaklega fyrir maka stjórnarmanna, hvorki flug né gisting. Þeim var þó boðið á leiki. Þetta hefur verið leiðrétt.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.