Erlent

Æðstu embættismenn Trump sjá Rússland sem ógn

Samúel Karl Ólason skrifar
James Mattis og Mike Pompeo.
James Mattis og Mike Pompeo. Vísir/AFP
Fyrrverandi hershöfðinginn James Mattis og þingmaðurinn Mike Pompeo segjast báðir telja að Bandaríkjunum og bandamönnum landsins stafi ógn af Rússlandi. Mattis hefur verið tilnefndur sem varnarmálaráðherra af Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna, og Pompeo hefur verið tilnefndur til að leiða leyniþjónustur Bandaríkjanna.

Yfirlýsingar Mattis og Pompeo hafa vakið athygli þar sem Trump hefur ítrekað talað um að bæta samskipti Bandaríkjanna og Rússlands.

Mattis sagði samkvæmt BBC að Vladimir Putin, forseti Rússlands, væri að reyna að sundra ríkjum Atlantshafsbandalagsins. Nauðsynlegt væri fyrir NATO að vernda sig með öllum leiðum.

Nefndi hann sérstaklega aðgerðir Rússa í Úkraínu sem og aðgerðir Kína í Suður-Kínahafi.

Matt Pompeo þurfti að svara spurningum þingmanna um yfirlýsingar Donald Trump varðandi leyniþjónustur Bandaríkjanna, en hann neitaði lengi að sætta sig við niðurstöður þeirra að Rússar hefðu haft áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Gjá hefur myndast á milli Trump og leyniþjónusta Bandaríkjanna.

Pompeo sagði að Trump bæri fullt traust til leyniþjónustanna. Þá gagnrýndi hann Rússland fyrir aðgerðir sínar í Úkraínu, að ógna Evrópu og fyrir að gera „nánast ekkert“ til að eyða Íslamska ríkinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×