Fótbolti

Kolbeinn bauðst til að spila frítt fyrir Galatasaray

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn á flugvellinum í Istanbúl en það kom aldrei til þess að hann myndi spila með Galatasaray.
Kolbeinn á flugvellinum í Istanbúl en það kom aldrei til þess að hann myndi spila með Galatasaray. vísir
Kolbeinn Sigþórsson bauðst til að spila frítt með Galatasaray til loka tímabilsins þegar ljóst varð að félagið myndi rifta samningi hans við félagið.

Þetta sagði Kolbeinn í viðtali sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísi í morgun og má lesa í heild sinni hér.

Sjá einnig: Langt í frá týndur en mjög áhyggjufullur yfir ferlinum

Eins og Kolbeinn lýsir í viðtalinu þurfti hann að fara í liðþófaaðgerð í byrjun september, skömmu eftir að hann hafði komið sem lánsmaður til Galtasaray frá Nantes, félagi hans í Frakklandi.

Batinn var því miður ekki nógu góður eftir aðgerðina og sér reyndar ekki enn fyrir endann á því ferli. Líklegt er að Kolbeinn þurfi að fara í aðra aðgerð, sem er alvarlegt mál og setur feril hans í óvissu.

Galatasaray átti hins vegar engra annarra kosta völ en að rifta samningnum við Kolbein, að hans sögn.

„Þeir gátu það ekki, vegna einhverra reglna frá UEFA sem þeir þurfa að hlýta. Það er auðvitað mikil pressa á félagi eins og Galatasaray að ná árangri,“ sagði Kolbeinn.

Kolbeinn ber engan kala til Galatasaray, þvert á móti. „Ég skildi þeirra ákvörðun mjög vel. Þetta er frábær klúbbur og afar vel komið fram við mig. Mér fannst ég vera á besta mögulega staðnum fyrir mig,“ segir hann.

„Ég bauðst til að spila frítt með liðinu eftir áramót. Ég var það viljugur að vera áfram. En þeir gátu ekki fengið annan leikmann inn nema með því að losa mig. Það var því ekki hægt.“

Í viðtalinu greinir Kolbeinn ítarlega frá baráttu sinni við meiðsli og stöðu sína hjá Nantes, franska félaginu sem hann er samningsbundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×