Innlent

Skinn og bátar Skrælingjanna geta bent á hvar Vínland var

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þorfinnur karlsefni og Guðríður Þorbjarnardóttir eiga kaupstefnu við Skrælingja. Myndin er úr norskri útgáfu Flateyjarbókar og er eftir myndlistarmanninn Anders Kvåle Rue.
Þorfinnur karlsefni og Guðríður Þorbjarnardóttir eiga kaupstefnu við Skrælingja. Myndin er úr norskri útgáfu Flateyjarbókar og er eftir myndlistarmanninn Anders Kvåle Rue. Mynd/Anders Kvåle Rue.
Lýsingar Vínlandssagna á fólkinu sem víkingar nefndu Skrælingja eru þess eðlis að vart fer á milli mála að þeir hittu frumbyggja Ameríku. Í frásögnum af lifnaðarháttum indíánanna leynast einnig vísbendingar sem geta hjálpað mönnum að átta sig á af hvaða ættbálki þeir voru og þar með hvar Vínland var. Um þetta er fjallað í næsta þætti Landnemanna á Stöð 2 á mánudagskvöld sem ber heitið: Guðríður Þorbjarnardóttir.

Í frásögn Grænlendinga sögu af annarri Vínlandsferðnni, leiðangri Þorvalds Eiríkssonar, bróður Leifs heppna, er sagt frá fyrstu samskiptum víkinga og indíána „..sjá þar húðkeipa þrjá og þrjá menn undir hverjum.“

Sænski fornleifafræðingurinn Birgitta Wallace lýsir því í þættinum að þetta sé vísbending því notkun skinnbáta hafi verið bundin við afmörkuð svæði. Hún bendir á að Mikmaq-indíánar hafi notað slíka báta en þeir bjuggu jafnframt á svæði þar sem vínviður óx. 

Birgitta Wallace var meðal þeirra fornleifafræðinga sem rannsökuðu búðatóftirnar á Nýfundnalandi.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Þessi fyrstu samskipti norrænna manna og indíána byrjuðu raunar ekki vel því það fyrsta sem Þorvaldur og menn hans gerðu var að drepa þá. Einn þeirra komst undan lifandi og skömmu síðar fjölmenntu indíánar til hefnda á ótal húðkeipum og skutu á víkingana. Þorvaldur fékk ör í sig og lést af sárum sínum. 

Í þriðja Vínlandsleiðangrinum, ferð Þorfinns karlsefnis og Guðríðar Þorbjarnardóttur, gengu samskiptin friðsamlega til að byrja með „..og tóku kaupstefnu sín á millum og vildi það fólk helst kaupa rautt klæði. Þeir vildu og kaupa sverð og spjót en það bönnuðu þeir Karlsefni,“ segir í Eiríks sögu rauða.

Þeir Howard Augustine og George Paul sýna í Landnemunum hvar víkingarnir frá Íslandi gætu hafa fundið vínvið á svæði Mikmaq-indíána í New Brunswick.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Söluvörur innfæddra og ákafi þeirra í viðskipti eru einnig vísbendingar „..það var grávara og safali og alls konar skinnavara..,“ segir Grænlendinga saga. Í viðtölum í þættinum við Mikmaq-indíána kemur fram að þetta var einmitt ríkt meðal Mikmaq-fólksins, að stunda vöruskipti við aðra þjóðflokka, þar á meðal við Inúíta í norðri, og þeirra helstu vörur voru dýraskinn af ýmsu tagi. 

Í þættinum verður heilsað upp á Mikmaq-indíána við Miramichi-ána í New Brunswick en þar er rekin menningarmiðstöð þar sem kynnast má sögu þeirra. Þar telur Birgitta Wallace að hafi verið sá staður sem nefndur var Hóp í fornsögunum og þar hafi Vínland verið.

Frá Miramichi-ánni í New Brunswick. Hún er í dag auglýst sem ein besta laxveiðiá heims og staðhæft að ekkert vatnasvæði fóstri jafnmikið af Atlantshafslaxi og þetta. Hver lækur var þar fullur af fiskum og stærri lax en þeir höfðu áður séð, segir í fornsögunum.Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.
Víkingarnir gætu hafa kynnst nokkrum ættbálkum frumbyggja, eins og Beothuks og Inúítum. Nyrst á Nýfundnalandi eru einu staðfestu minjarnar um veru norrænna manna á austurströnd í Ameríku í kringum árið 1000 en á þeim tíma bjuggu Beothuks-indíánar á sunnan- og austanverðu Nýfundnalandi.

Örlög þeirra urðu hins vegar hörmuleg. Með landnámi Breta og Frakka á Nýfundnalandi á sautjándu og átjándu öld misstu þeir búsvæði sín, lentu í átökum við evrópska innflytjendur, veiktust af sjúkómum þeirra og dóu endanlega út snemma á nítjándu öld.

Þá notuðu norrænir menn á miðöldum nafnið Skrælingjar einnig um Inúíta á Grænlandi.

Frá norrænu búðatóftunum á Nýfundnalandi. Aldursgreiningar benda til að þær hafi verið byggðar í kringum árið 1000, á þeim tíma sem fornsögurnar segja að Leifur Eiríksson hafi siglt til Vínlands. Safnbygging L'Anse aux Meadows sést fjær undir klettunum.Stöð 2/Kristján Már Unnarsson.
Landnemarnir eru á dagskrá á mánudagskvöld klukkan 19.20, í opinni dagskrá strax að loknum fréttum. Hér má sjá sýnishorn úr þættinum. Þeir sem misstu af síðasta þætti geta séð hann kl. 17.00 í dag en þættirnir eru endursýndir á Stöð 2 síðdegis á sunnudögum.


Tengdar fréttir

Ný Flateyjarbók kynnt

Ný og ríkulega myndskreytt útgáfa af Flateyjarbók á norsku verður kynnt í dag í Fróða, sal í húsi Íslenskrar erfðagreiningar að Sturlugötu 8. Norska forlagið SagaBok gefur hana út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×