Bækurnar eru bundnar í skinn og hvort bindi er milli 400 og 500 blaðsíður. Anders Hansen, framkvæmdastjóri Lærdómssetursins á Leirubakka í Landsveit er meðal þeirra sem standa að kynningu á verkinu í húsi Íslenskrar erfðagreiningar í dag klukkan 16.30.

Lærdómssetrið á Leirubakka hefur haldið nokkrar ráðstefnur um norræn fræði og verið í samstarfi við háskólann í Stavanger.
„Við höfum fengið nemendur þaðan sem hafa verið allt að hálfan mánuð í kúrsum sem bæði íslenskir og norskir prófessorar hafa kennt,“ lýsir Anders.
Hann segir þess getið í stofnskrá setursins að Ísland sé síðasta landið sem byggðist í Evrópu og íslenska þjóðin sú nýjasta. Athygli starfseminnar beinist að því hvernig mannlíf þróist í nýju landi. Flateyjarbók sé ein heimildanna um það.
Dagskráin í Fróða í dag í húsi Íslenskrar erfðagreiningar:
Í Fróða flytja ávörp Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, Torgrim Titlestad prófessor í Stavangri, Anders Kvåle Rue myndlistarmaður og Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs á Íslandi. Kynning verður á Jóni Hákonarsyni í Víðidalstungu sem lét gera bókina upphaflega í lok 14. aldar. Að fundi loknum verða veitingar í boði norska sendiráðsins og Hallvard T. Björgum, einn kunnasti fiðluleikari Noregs, leikur á hina fornu Harðangursfiðlu. Sýning er á listaverkunum sem prýða hina nýju útgáfu.