Innlent

Segir Miðflokkinn vera einangraðan í stjórnarmyndunarviðræðum

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Baldur segir að allir flokkar vilji vinna með Framsóknarflokknum og Vinstri grænum.
Baldur segir að allir flokkar vilji vinna með Framsóknarflokknum og Vinstri grænum. Vísir/Samsett
Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðiprófessor segir að Miðflokkurinn sé einangraður í stjórnarmyndunarviðræðunum. „Flokkarnir, fyrir utan Flokk fólksins, vilja ekki vinna með honum nema í algjörri neyð,“ skrifar Baldur í færslu á Facebook síðu sinni. Þá segir hann að samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Flokks fólksins og Miðflokksins sé mjög ólíkleg eins og staðan er í dag.

Jafnframt segir hann það stórlega vanmetið í opinberri umræðu hversu erfitt það er fyrir Framsóknarflokkinn og Miðflokkinn að vinna saman vegna ágreinings um málefni, vinnubrögð og deilna milli einstaklinga. Baldur telur hins vegar Framsóknarflokkinn ekki í frekari lykilstöðu en Vinstri hreyfingin grænt framboð. „Það vilja allir vinna með þessum tveimur flokkum. Allt bendir til þess að VG geti unnið bæði til hægri og vinstri.“



Sigmundur ímyndar sér að ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri Grænna yrði veik

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði í samtali við Vísi í síðustu viku að hann væri ekki sannfærður um að ríkisstjórn með breiða skírskotun frá hægri til vinstri væri vænlegasti kosturinn í stöðunni. Þá sagði hann að ef hann fengi umboð til stjórnarmyndunar myndi hann eiga samtal við formenn allra flokka. „Ég er eindregið þeirrar skoðunar að æskilegt sé að mynda ríkisstjórn á grundvelli málefnanna og mér hefur þótt svolítið skrýtið að fylgjast með tali um annað undanfara daga,“ sagði Sigmundur.

Sigmundur sagði að ríkisstjórn þeirra flokka sem eru nú að ræða saman myndi varla snúast um margt annað en að viðhalda núverandi ástandi. „Ég ímynda mér að slík ríkisstjórn væri veik já, ef þessum flokkum er einhver alvara með sínar pólitísku áherslur. Því að það myndi varla snúast um margt annað en að viðhalda núverandi ástandi.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×