Samgöngustofa hafnaði beiðni Eimskips um að sigla ferjunni Akranesi til Vestmannaeyja um verslunarmannahelgina. Ferjan hefur verið í tilraunasiglingum milli Akraness og Reykjavíkur, en sótt var um tímabundið leyfi fyrir breytingu á siglingum. Eftir að beiðninni var hafnað sendi Elliði stjórnsýslukæru vegna málsins til samgönguráðherra. Niðurstaða ráðuneytisins vegna hennar komi fyrr en í fyrsta lagi í dag.

Eins og sjá má í svari Páls Magnússonar þingmanns finnst honum rökstuðningur Samgöngustofu vera fullur af innbyrðis mótsögnum og óskiljanlegur í samhengi hlutanna. Elliði tekur undir þessi orð. „Mér finnst þessi eftirlitsstofnun í þessu máli hafa farið algjörlega framúr sér. Það er hreint óþægilegt fyrir okkur sem eigum svona mikið undir í samgöngum að geta ekki gengið að þessu kerfi sem sanngjarnara og vandaðra.“
Eimskip sótti um leyfið fyrir um mánuði og Vestmannaeyjabær kom inn í ferlið á síðari stigum. „Þetta er svo mikilvægt fyrir okkur að við verðum að verja hagsmuni okkar og munum gera það eins lengi og þurfa þykir,“ segir Elliði. Aðspurður hvað gerist ef ákvörðun ráðuneytisins verður neikvæð segir hann að það séu fleiri fyrirtæki í útsýnissiglingum á Íslandi. „Við munum klárlega hvetja alla til að leita fyrir sér með flutninga í farþega- og útsýnissiglingu í kringum Vestmannaeyjar.“
Hann segir að þetta snúist ekki aðeins um að gera Þjóðhátíð sem stærsta og mesta. Hún verði alltaf glæsileg og verði eftir í minningum fólks ár eftir ár. „Þetta snýst um að auka þjónustu fyrir gesti okkar og líka að við sem eyjasamfélag, sem á allt undir í samgöngum, sitjum ekki undir svona óvönduðum og geðþóttafullum ákvörðunum.“