
Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, vill taka upp eftirlit við Silfru með öryggisvörðum sem stæðu vaktir þar. Til að standa undir kostnaði við slíkt eftirlit þyrfti þjóðgarðurinn að hækka gjald fyrir köfun úr 1.000 krónum í 1.500 krónur. „Öryggismálin snúa að Samgöngustofu og með því að hækka gjaldið um 500 krónur þá er hægt að fá laun fyrir tvo menn sem á vöktum gætu staðið þarna,“ segir Ólafur. Hann segist hafa átt marga góða fundi um þetta með Samgöngustofu og fleiri fundir verði haldnir á næstunni. Þjóðgarðurinn hafi fengið fyrirtæki sem heitir Lota til þess að gera úttekt á því hvernig staðið yrði að svona eftirliti með valdheimildum. Hann vilji leggja þá úttekt fram á næsta fundi með Samgöngustofu.
Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir hins vegar að hinn stjórnsýslulegi eftirlitsþáttur Samgöngustofu nái ekki til þess að vera með eftirlitsmenn við ferðaþjónustufyrirtæki, enda væri það víðtækara en hlutverk Samgöngustofu í dag. „Þá þyrftum við að vera með eftirlit við Jökulsárlón og öll „river rafting“-fyrirtæki og á öllum bryggjum þar sem stundaðar eru hvalaskoðunarferðir eða útsýnissiglingar. Þetta væri þá orðið mjög víðtækt,“ segir Þórhildur Elín.
Samgöngustofa heyrir undir samgönguráðherra. Jón Gunnarsson, ráðherra málaflokksins, segist vera að afla sér upplýsinga um málið úr ráðuneytinu og frá Samgöngustofu.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.