Innlent

Setti upp sannkallað jólaland í garðinum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Birna var í fimm til sex vikur að stilla öllu saman upp.
Birna var í fimm til sex vikur að stilla öllu saman upp. Vísir/Egill

Það tók íbúa í Laugardalnum um fimm til sex vikur að koma upp sannkölluðu jólaþorpi í garðinum heima hjá sér. Jólakötturinn, Grýla og jólasveinarnir hafa hreiðrað um sig í garðinum ásamt ótrúlegustu fígúrum sem hafa vakið mikla athygli þeirra sem eiga leið hjá.

Birna Sigmundsdóttir er alfarið hætt að hafa jólaskraut innandyra og hefur þess í stað komið því öllu fyrir úti í garði og gott betur. Meðal þess sem er að finna í garðinum eru rólandi snjókarlar, latur Leppalúði og jólasveinar í öllum stærðum og gerðum.

„Þetta gleður svo marga. Kemur hérna mikið af börnum og fullorðnu fólki og þetta gleður, og þá er ég ánægð,“ segir Birna. Þá hafa nokkrar dúkkur komið sér fyrir í fínu teboði en kjólana saumaði Birna sjálf úr jóladúkum. Álfalandið er svo í sérstöku uppáhaldi og Gríla er ekki langt undan með óþekk börn í poka.

Ekki skortir heldur jólaseríurnar sem taka sinn toll af rafmagni en Birna notar alls um 70 innstungur til að stinga í samband. „Ég ætla bara að reyna að semja við orkuveituna vegna þess að ég veit að kísilverksmiðjurnar þær fá ódýra orku, þá hlýt ég að geta fengið líka ódýra,” segir Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×