Ísland á eftir einn heimaleik í núverandi undankeppni en strákarnir hafa unnið alla hingað til - gegn Finnlandi, Tyrklandi, Króatíu og nú Úkraínu. Strákarnir mæta botnlði Kósóvó í lokaleik riðlakeppninnar á Laugardalsvelli í næsta mánuði.
Sjá einnig: Farseðill til Rússlands yrði mesta afrek í knattspyrnusögu Íslands
Ísland spilaði einnig alla heimaleiki sína í síðustu undankeppni án þess að tapa en síðasti tapleikur íslenska liðsins á Laugardalsvelli kom þegar okkar menn fengu á sig fjögur mörk gegn Slóveníu í 4-2 tapleik þann 7. júní 2013.
Markatalan í þessum fimmtán leikjum er ekki síður glæsileg en Ísland hefur skorað 27 mörk í þessum fimmtán leikjum en fengið aðeins sex mörk á sig.
Sjá einnig: Draumurinn um Rússland lifir
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörk Íslands í leiknum í gær og er nú kominn með sautján mörk alls fyrir landsliðið, jafn mörg og Ríkharður Jónsson heitinn skoraði á sínum tíma. Aðeins Eiður Smári Guðjohnsen og Kolbeinn Sigþórsson hafa skorað fleiri mörk í íslensku landsliðstreyjunni.
Næsti leikur Íslands fer fram gegn Tyrklandi ytra þann 6. október. Sigur í þeim leik setur Ísland í lykilstöðu í baráttunni um sæti í lokakeppni HM í Rússlandi.
Leikir Íslands á Laugardalsvelli síðan 2013:
2013:
7. júní: Ísland - Slóvenía 2-4
14. ágúst: Ísland - Færeyjar 1-0
10. september: Ísland - Albanía 2-1
11. október: Ísland - Kýpur 2-0
15. nóvember: Ísland - Króatía 0-0
2014:
4. júní: Ísland - Eistland 1-0
9. sept: Ísland - Tyrkland 3-0
13. október: Ísland - Holland 2-0
2015:
12. júní: Ísland - Tékkland 2-1
6. sept: Ísland - Kasakstan 0-0
10. okt: Ísland - Lettland 2-2
2016:
6. júní: Ísland - Liechtenstein 4-0
6. okt: Ísland - Finnland 3-2
9. okt: Ísland - Tyrkland 2-0
2017:
11. júní: Ísland - Króatía 1-0
5. sept: Ísland - Úkraína 2-0