Freyr gefur óreyndari leikmönnum tækifæri en Eyjakonan Sigríður Lára Garðarsdóttir byrjar á miðjunni. Þetta er hennar annar A-landsleikur. Thelma Björk Einarsdóttir úr Val verður í vinstri bakverði en hún á tíu landsleiki að baki.
Sjá einnig:Tækifærin verða í boði á Algarve – og engar afsakanir
Aðeins þrír leikmenn úr byrjunarliðinu sem spilaði flesta leikina í undankeppni EM 2017 byrja í dag en það eru Sara Björk Gunnarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Elísa Viðarsdóttir. Það er því tækifæri fyrir aðra leikmenn að nýta sitt tækifæri í dag.

„Mig langar að sjá hvort Sigríður Lára geti fyllt í skarð Dagnýjar Brynjarsdóttur er varðar líkamlega þáttinn og föstu leikatriðin. Hún er á svona þriggja manna sláttuvélamiðju hjá mér sem mig langar að prófa gegn jafn líkamlega sterkum andstæðingi og Noregi. Sara verður fyrir aftan en Gunnhildur færist aðeins framar og tekur hlaupin inn á teiginn sem Dagný hefur vanalega gert. Það verður gaman að sjá hvernig stelpurnar nýta þetta tækifæri,“ segir Freyr Alexandersson.
Byrjunarlið Íslands (4-3-3): Sandra Sigurðardóttir; Elísa Viðarsdóttir, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Thelma Björk Einarsdóttir; Sara Björk Gunnarsdóttir, Sigríður Lára Garðarsdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir; Elín Metta Jensen, Sandra María Jessen, Katrín Ásbjörnsdóttir.