Innlent

Minni háttar Skaftárhlaup líklega hafið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi Skaftárhlaups síðasta haust en þá hljóp úr eystari Skaftárkatli. Nú er hins vegar hlaupið að koma úr vestari katlinum.
Frá vettvangi Skaftárhlaups síðasta haust en þá hljóp úr eystari Skaftárkatli. Nú er hins vegar hlaupið að koma úr vestari katlinum. vísir/vilhelm

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér viðvörun vegna vatnavár þar sem rennsli Skaftár við Sveinstind hefur verið að aukast síðustu daga og minni háttar aukning hefur einnig orðið í rafleiðni. Athuganir sérfræðinga Veðurstofunnar sýna að minniháttar Skaftárhlaup er líklega hafið. Mjög ólíklegt er að það valdi tjóni í Skaftárdal.

„Sumarleysing á jökli eða rigningar orsaka ekki hið aukna rennsli. Þessar athuganir þýða að Skaftárhlaup er líklega hafið. Rennslið við Sveinstind er nú um 112 rúmmetrar á sekúndu. Hlaupið kemur líklegast úr vestari Skaftárkatli, sem síðast hljóp úr í júní 2015. Vegna hins stutta tíma sem liðið hefur milli hlaupa er ekki talið að hætta sé á ferðum. Upptök hlaupsins fást ekki staðfest nema með athugunum úr flugi yfir katlana. Hlaupið getur staðið yfir næstu daga, en hámarksrennsli við Sveinstind verður líklegast náð í dag eða á morgun,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Möguleg vá:

•    Brennisteinsvetni berst með hlaupvatninu þegar það kemur undan jökli. Styrkur þess er þá svo mikill að það getur skaðað slímhúð í augum og öndunarvegi. Ferðafólki er því eindregið ráðlagt að halda sig fjarri jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.

•    Sprungur munu myndast mjög hratt í kringum ketilinn, því ætti ferðafólk á Vatnajökli að halda sig fjarri kötlunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×