Þetta kom fram í sérstakri umræðu um stöðu Mývatns og frárennslismál, en málshefjandi var Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna. Hann bar upp þá hugmynd sína að nú þegar verði sveitarfélagið styrkt um 150 til 170 milljónir króna sem mótframlag ríkisins til uppbyggingar í fráveitu, sem sveitarfélagið hefði ekki bolmagn til að gera. Því til viðbótar verði lagðir til peningar til að efla þær rannsóknir á svæðinu sem eru nauðsynlegar og til úrvinnslu þeirra rannsóknargagna sem þegar liggja fyrir. Eins til nauðsynlegrar vöktunar á svæðinu.

Í svarræðu sinni missti Steingrímur þolinmæðina og ítrekaði að bregðast yrði við strax og fjárfesta í Mývatni – rannsóknir og vöktun snúi að fjármunum og mannskap. Það snúist ekki um stjórnunarfyrirkomulag, og vísaði til orða ráðherra um sameiningar rannsóknastofnana. Krafðist Steingrímur svara. „Verum ekki að gera þetta flókið. Er hæstvirtur ráðherra tilbúinn til að leggja slíka tillögu fram?“ spurði Steingrímur.

Þau Óttarr Proppé, Bjartri framtíð, Birgitta Jónsdóttir, Pírati, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Samfylkingu, og Elín Hirst, Sjálfstæðisflokki, tóku öll til máls og kröfðust öll skýlausra viðbragða stjórnvalda. Það gerði Svandís Svavarsdóttir, Vinstri grænum, einnig sem og Jón Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki og formaður atvinnuveganefndar, sem hefur sagt að ekki þurfi sérstakt þingmál til að ganga til verka, heldur að eyrnamerkja fjármagn strax til þess. Nefndi hann á dögunum svo háa tölu sem 1,5 milljarða króna, en umhverfisráðherra hefur tekið frekar fálega í það í svörum við spurningum fjölmiðla.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra voru ekki viðstaddir umræðuna.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. maí