Saga Sig leikstýrir tónlistarmyndbandinu en Glowie segir samstarfið hafa gengið vel þar sem þær voru nánast sammála í einu og öllu. „Það var æðislegt að vinna með Sögu. Við vorum sammála með nánast allt. Það sem við erum með svipaðan stíl þá vissi hún hvernig þetta ætti að vera og útkoman er ótrúlega flott. Myndbandið er ekki í takt við textann, enda fjallar hann um strák sem er alltaf að ljúga að mér. En í staðinn fyrir að væla um það í myndbandinu og vera væmin vildi ég frekar eiga geðveikan dag með vinkonum mínum og líta frekar út fyrir að vera of „cool“ til að hugsa um einhvern strák.“

Það er óhætt að segja að Glowie hafi smalað saman sínu nánasta fólki við gerð myndbandsins en vinkonur Glowie leika með henni í myndbandinu og kærastinn hennar klippir það. „Það var fáranlega gaman að leika í myndbandinu með bestu vinkonum sínum. Svo skemmir ekki fyrir að vera að fínpússa og klára það með kærastanum.“
Afraksturinn má berja augum á Kexi Hosteli annaðkvöld klukkan 21.00 en þá verður myndbandið frumsýnt. Í framhaldinu mun Glowie og hennar teymi senda það til Bandaríkjanna á stóru plötufyrirtækin.
„Ég er vongóð fyrir haustinu en ég veit að það mun aldrei neitt gerast nema ég trúi sjálf á það. Ég veit ekki hvort eitthvað gerist núna í ár eða eftir nokkur ár en ég veit að það mun einhvern tímann gerast. Ég hef trú á mér.“