Ríkissjóður hefur hefur selt Reykjavíkurborg landsvæði í Skerjafirði sem var undir þriðju flugbraut Reykjavíkurflugvallar. Flugbrautin hefur oft verið nefnd neyðarbrautin, en henni hefur nú verið lokað. Svæðið sem um ræðir er rúmir 108 þúsund fermetrar og var kaupsamningur og afsal kynnt á fundi borgarráðs í gær.
Borgarstjóri hefur óskað eftir tillögu frá umhverfis- og skipulagssviði og skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar um hvernig staðið verði að skipulagi og undirbúningi uppbyggingar á svæðinu. Gert er ráð fyrir að svæðið verði að mestu skipulagt sem íbúabyggð.
Uppbyggingarsvæðið í Skerjafirði er fremur stórt eða alls rúmir 17 hektarar lands. Landið sem borgin kaupir af ríkinu er rúmir 11 hektarar eða um 63% af landinu sem skipulagt verður. Hinn hluta landsins átti borgin fyrir.
Kaupverðið sem Reykjavíkurborg hefur þegar greitt fyrir landið samkvæmt samningi er 440 milljónir króna, en viðbótargreiðslur koma til þegar lóðir verða seldar, samkvæmt sérstökum ákvæðum í fyrirliggjandi samningum.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu þann 9. júní síðastliðinn að ríkið þyrfti að loka þriðju flugbrautinni. Innanríkisráðherra fól í kjölfarið Isavia að ganga frá lokun brautarinnar. Ríkið var jafnframt dæmt til þess að greiða borginni tvær milljónir króna í málskostnað. Hæstiréttur vísaði þó frá kröfu borgarinnar um að endurskoða skyldi skipulagsreglur flugvallarins.
Ríkið selur Reykjavíkurborg land í Skerjafirði

Tengdar fréttir

Isavia falið að loka flugbraut 06/24
Innanríkisráðherra hefur falið Isavia að loka norðaustur-suðvestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar.

Hæstiréttur: Neyðarbrautin þarf að loka innan 16 vikna
Íslenska ríkið þarf að loka NA-SV flugbraut Reykjavíkurflugvallar, hinni svokölluðu neyðarbraut, innan sextán vikna eða fyrir 29. september næstkomandi.

Hæstiréttur fellir dóm um neyðarbrautina í dag
Verður umdeildustu flugbraut landsins lokað endanlega?

Dagur B.: Fullnaðarsigur fyrir borgina
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkurborgar er mjög ánægður með niðurstöðu Hæstaréttar þess efnis að loka þurfi neyðarbrautinni.