Kettlingarnir höfðu verið í ömurlegum aðstæðum og margir saman í litlum búrum. Þau voru útötuð í saur og hlutar af þeim brunnir vegna úrgangsins. Tveir þeirra eru með alvarlegar augnsýkingar og munu aldrei fá fulla sjón á nýjan leik. Sem stendur er leitað að góðhjörtuðum einstaklingum sem geta tekið kettina að sér þegar þeir hafa náð sér. Tveir þeirra munu aldrei geta verið útikettir sökum þess hve illa þeir sjá.

Villikettir eru samtök sem voru stofnuð árið 2013 en markmið þeirra er að koma villiköttum til aðstoðar. Sjálfboðaliðar samtakanna fara á svæði þar sem villikettir halda sig til, gefa þeim æti, reyna að handsama þá og gelda. „Málið er að ef þú færð meindýraeyði til að lóga þeim þá koma bara nýir kettir í staðinn. Með því að vana þá þá halda þeir sínu svæði en ná ekki að fjölga sér,“ segir Olga Perla Nielsen sem er formaður samtakanna.
Hún áætlar að frá stofnun samtakanna hafi þau aðstoðað rúmlega tvö hundruð ketti. Margir þeirra hafa verið sjúkir og haft það slæmt en þeim hefur verið hjúkrað. Þrír kettir voru svo aðframkomnir að þeim var lógað.
„Það er allt of mikið um það að fólk taki ekki ábyrgð á dýrunum sínum. Það eru ákveðin svæði þar sem marga villiketti er að finna og við reynum að aðstoða þá og koma í veg fyrir að þeir fjölgi sér,“ segir Arndís. Starfið er sjálfboðastarf og þeir sem hafa áhuga á aðstoða geta haft samband við stjórnendur.
Starfsmönnum Matvælastofnunar hefur verið gert viðvart um aðbúnaðinn á heimilinu þar sem kettlingarnir þrír dvöldu. Ekki er vitað hve marga ketti er þar að finna.