Innlent

Hljóta að kalla saman þing á næstu dögum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
„Einhver þarf að endurskoða hug sinn varðandi samstarf við aðra, það er alveg ljóst,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann á Bifröst.

Líkt og alþjóð veit runnu stjórnarmyndunarviðræður Vinstri Grænna, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar Framtíðar og Samfylkingar út í sandinn í gær.

„Það eru einhverjir kostir eftir en engir sem einhver hefur samt sem áður ekki útilokað,“ segir Eiríkur. „Núna verður fólk að vinda ofan af því. Katrín Jakobsdóttir á auðvitað þann leik í stöðunni að teygja sig yfir til Sjálfstæðisflokksins og hafa þá einn af minni flokkunum með í þeirri stjórn. Þar með væri hún auðvitað að stíga skref sem hún hefur hingað til ekki viljað taka.“

Nú eru tæpar fjórar vikur frá kosningum og rúmar fimm vikur til áramóta. Þarf ekki að fara að kalla Alþingi saman til bráðabirgða?

„Það fer að líða að því að það þurfi að kalla saman þing,“ segir Eiríkur. „Forsætisráðherra og forseti geta kallað saman þing og það þing getur samþykkt þau embættismannafjárlög sem nú liggja fyrir. Svo er hægt að fara skemmri skírn og kalla þingið saman og samþykkja greiðsluheimild til ríkisins fram yfir áramót til að ríkið geti haldið áfram sínu starfi án þess að fjárlög sem slík séu komin í gildi,“ segir hann. „Þannig að það eru nokkrar leiðir til en ég myndi halda að ef að það kemur ekki upp augljós ríkisstjórnarkostur á allra næstu dögum hljóta menn að huga að því að kalla saman þingið,“ segir Eiríkur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×