Innlent

Formaður kjararáðs neitar að tjá sig

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jónas Þór Guðmundsson formaður kjararáðs.
Jónas Þór Guðmundsson formaður kjararáðs. vísir/valli
Ákvörðun kjararáðs um að hækka laun þingmanna, ráðherra og forseta Íslands hefur vakið mikla athygli og reiði í samfélaginu enda er hækkunin langt umfram launahækkanir sem samið hefur verið um í nýlegum kjarasamningum. Þá hefur tímasetningin einnig vakið mikla athygli þar sem kjararáð fundaði á kjördag og tilkynnti um niðurstöðu sína á fyrsta virka degi eftir kosningar.



Sjá einnig:
Hamslaus reiði á Facebook vegna ákvörðunar kjararáðs

Jónas Þór Guðmundsson er formaður kjararáðs en hann hafði í nógu að snúast á kjördag því auk þess að sitja fund ráðsins var hann formaður yfirkjörstjórnar í stærsta kjördæmi landsins, Suðvesturkjördæmi. Jónas vildi hvorki tjá sig um þessa umdeildu ákvörðun kjararáðs né heldur um hvað réði tímasetningunni þegar Vísir leitaði eftir því og vísaði aðeins í lög um kjararáð.

Ekkert segir til um það í lögum um kjararáð nákvæmlega hvenær ráðið endurskoðar laun þeirra hópa sem heyrir undir það né heldur hvenær slíkar ákvarðanir skulu kynntar, en í 10. grein laganna segir:

„Eigi sjaldnar en árlega skal kjararáð meta hvort tilefni sé til breytinga á starfskjörum sem það ákveður. Kjararáð getur þó ákveðið að stefnumarkandi ákvarðanir um innbyrðis launahlutföll og heildarstarfskjör á ákvörðunarsviði ráðsins séu teknar sjaldnar, allt að fjórða hvert ár.

Kjararáð skal birta ákvarðanir sínar og úrskurði og ástæður fyrir þeim opinberlega með skipulegum og aðgengilegum hætti.“

Þá segir jafnframt í lögum um ráðið að skuli „ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×