Innlent

Hækkun launa alþingismanna hefur áhrif á eftirlaun og biðlaun

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Kjararáð hefur hækkað laun alþingismanna um 45 prósent.
Kjararáð hefur hækkað laun alþingismanna um 45 prósent. vísir/eyþór
Kjararáð hefur hækkað þingfararkaup alþingismanna um 45 prósent, eða tæpar 340 þúsund krónur á mánuði, en hækkunin tók gildi í gær. Samkvæmt síðustu launaskrá var mánaðarlegt þingfararkaup alþingismanna 762.940 krónur en er nú 1.101.194 krónur. Laun ráðherra og forseta Íslands hækkuðu að sama skapi.

Sjá einnig: Laun alþingismanna hækka um nálega 340 þúsund



Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra og alþingismanna verða í samræmi við breytingar kjararáðs. Eftirlaun alþingismanna nema 3 prósentum af heildarlaunum þeirra fyrir hvert ár sem þeir sátu á þingi. Þeir þingmenn sem eiga rétt á eftirlaunum þurfa að vera sextíu ára eða eldri þegar þeir láta af störfum eða 65 ára, hafi þeir látið af störfum fyrr. 

Biðlaun alþingismanna hækka einnig í samræmi við úrskurð kjararáðs. Þeir alþingismenn sem taka ekki sæti á nýkjörnu þingi munu því njóta góðs af hækkuninni. Alþingismenn sem hafa setið eitt kjörtímabil getur þegið biðlaun í allt að þrjá mánuði en alþingismenn sem hafa setið tvö kjörtímabil eða fleiri eiga rétt á biðlaunum í allt að sex mánuði.

Biðlaun eru jafnhá þingfararkaupi sem ákveðið er af kjararáði og nema þau því 1,1 milljón króna á mánuði. 

Forseti Íslands á rétt á eftirlaunum að liðnum sex mánuðum sem hann nýtur biðlauna. Eftirlaun forseta nema 60 prósentum af mánaðarlaunum hafi hann setið eitt kjörtímabil, 70 prósentum ef hann hefur setið tvö og 80 prósentum hafi hann setið fleiri en tvö kjörtímabil. Munu eftirlaun Vigdísar Finnbogadóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar því nema um 2,4 milljónum á mánuði. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×