Innlent

Laun alþingismanna hækka um nálega 340 þúsund

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Þingfararkaup alþingismanna hefur aldrei verið hærra en það verður rúm 1,1 milljón á mánuði samkvæmt úrskurði kjararáðs.
Þingfararkaup alþingismanna hefur aldrei verið hærra en það verður rúm 1,1 milljón á mánuði samkvæmt úrskurði kjararáðs.
Kjararáð hefur hækkað þingfararkaup alþingismanna um tæp 45 prósent eða sem nemur 338.254 krónum á mánuði. Samkvæmt síðustu launaskrá var mánaðarlegt þingfararkaup alþingismanna 762.940 krónur en er nú 1.101.194 krónur.

Laun ráðherra og forseta Íslands koma einnig til með að hækka talsvert. Mánaðarkaup forsætisráðherra að meðtöldu þingfararkaupi verður 2.021.828 krónur en laun annarra ráðherra að meðtöldu þingfararkaupi verða 1.826.273 krónur á mánuði.

Laun forseta Íslands hækka einnig umtalsvert, eða um 20 prósent. Samkvæmt úrskurði kjararáðs verða mánaðarlaun forseta Íslands nú tæpar þrjár milljónir.

Launahækkun forseta Íslands tekur gildi á morgun, 1. nóvember en hækkun á launum alþingismanna og ráðherra tók gildi þann 30. október síðastliðinn. Því er ljóst að þingmenn næsta kjörtímabils munu njóta umtalsvert betri kjara en á síðasta kjörtímabili.

Ekki er langt liðið frá síðustu launahækkun þingmanna, ráðherra og forseta Íslands en hún var gerð í júní á þessu ári. Þá var um almenna 7,15 prósenta hækkun að ræða sem náði til allra sem heyra undir kjararáð.

Kjararáð er skipað fimm ráðsmönnum og fimm til vara. Þrír eru kosnir af Alþingi, Hæstiréttur skipar einn mann og fjármála- og efnahagsráð skipar einn. Hér má sjá hverjir skipa kjararáð 2014 til 2018. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá launahækkun þingmanna, ráðherra, forseta og annarra embættismanna frá árunum 2006 til 2016. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×