Innlent

Lögregla biður þá sem tóku upp farþega að láta vita

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. Vísir/vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biður alla þá sem tóku upp farþega rútunnar sem fór á hliðina við Skálafellsafleggjara á Þingvallavegi í morgun að láta strax vita. Það sé svo hægt sé að tryggja að allir farþegar hennar séu fundnir, en hægt er að vita í gegnum 112 eða björgunaraðila á vettvangi, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.

„Það er þannig að við höfum ekki getað gert grein fyrir öllum á vettvangi. Við viljum vera algjörlega viss um að við séum að gera grein fyrir öllum. Þetta þarf ekkert að vera óeðlilegt, þetta er fjörutíu manna rúta og við viljum bara vera algjörlega viss,“ segir Þórir Ingvarsson hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Mikill viðbúnaður er á vettvangi og er Þingvallarvegur lokaður þessa stundina. Um 20-30 manns voru í rútunni. Nokkrir slösuðust og klippa þurfti tvo út úr rútunni.

Uppfært klukkan 13:19: Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er búið að gera grein fyrir öllum farþegum. Alls voru fimmtán farþegar fluttir á Landspítalann og 27 farþegar voru fluttir í fjöldahjálparstöð í Mosfellsbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×