„Kvöldið fyrir aðalfund varð ljóst að ráðherrann Gunnar Bragi Sveinsson hygðist taka allt aðra stefnu með stjórn félagsins en fyrirrennarar hans í embætti, með því að skipa fjóra nýja stjórnarmenn þótt fyrir lægi að allir nema einn af stjórnarmönnum gæfu kost á sér,“ segir Friðrik Friðriksson, sem settur var af sem stjórnarformaður og út úr stjórninni á aðalfundinum,
Að sögn Friðriks sagði hann á aðalfundinum að vinnubrögð Gunnars Braga Sveinssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, væru ámælisverð.
„Í ljós hefur komið að einn af þeim sem stillt var upp af ráðherra hafði þegar afþakkað setu í stjórn áður en til fundarins kom, en var kjörinn samt. Þess utan voru samþykktir félagsins brotnar með því að framboð til stjórnar lá ekki fyrir fimm dögum fyrir fund,“ segir Friðrik.

Friðrik segir hins vegar óumdeilt að framkvæmd stjórnarkjörsins hafi verið gölluð og að það verði að leiðrétta. „Að mínu mati blasir við að það verður aðeins gert á nýjum aðalfundi eða hlutahafafundi og þá verði kjörin lögmæt stjórn í félaginu,“ segir hann og vísar í ákvæði laga sem segir að stjórnarmenn í opinberum hlutafélögum skuli allir kjörnir á sama fundi.
Kristján á hinn bóginn segir að aðeins þurfi að velja einn nýjan stjórnarmann. „Það fór ekkert úrskeiðis öðruvísi en þannig að einn stjórnarmaður tók ekki kjöri,“ segir hann. Ekki þurfi nýjan aðalfund og skipa þar alla stjórnina. „Það er ekki skoðun okkar.“ Að sögn Kristjáns er unnið að lausn málsins í samræmi við lög. „En þarna er bara einn eigandi,“ bendir ráðuneytisstjórinn á.

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, segist leggja áherslu á fagleg vinnubrögð. „Það er mikilvægt að öllum formsatriðum í þeirri löggjöf sem um okkur gildir verði fylgt og það er enginn ágreiningur um það,“ segir forstjórinn sem kveðst eiga von á því að boðað verði til nýs hluthafafundar. Boða þarf slíkan fund með sjö daga fyrirvara.
Ekki náðist í Brynhildi Davíðsdóttur í gær.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu