Innlent

„Baráttan stendur yfir til klukkan tíu í kvöld“

Samúel Karl Ólason skrifar
„Dagurinn leggst vel í mig,“ segir Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Vísi. Hún nýtti atkvæðarétt sinn í Gerðarskóla í Garði nú í morgun. Flokkurinn hefur ekki verið að koma vel út úr skoðanakönnunum en Oddný vonar það besta og er bjartsýn

„Baráttan stendur yfir til klukkan tíu í kvöld. Við berjumst fyrir því að raddir jafnaðarstefnunnar, sem hafa skapaði bestu velferðarsamfélög í heimi, verði á Alþingi Íslendinga og þær heyrist þar.“

Oddný segist bjartsýn fyrir daginn.

„Það sem að hefur einkennt baráttuna hjá okkur er að okkar frábæru frambjóðendur og kröftugu stuðningsmenn hafa haldið baráttugleðinni og staðið saman, þó að kosningabaráttan hafi á köflum verið erfið fyrir okkur.“

Kosningavakt Vísis fylgist grannt með gangi mála alla helgina og greinir frá tíðindum um leið og þau berast. Vaktina má finna hér.

Samfylkingin hefur ekki komið vel út úr skoðannakönnunum að undanförnu, en Oddný segist ekki vera kvíðin.

„Vegna þess að við höfum sannarlega gert okkar besta. Við erum með frábæra stefnu og þó að ekki fari vel í kvöld, við vonumst til að við fáum betri niðurstöðu en kannanir hafa sýnt, að þá munum við halda áfram að berjast fyrir jafnaðarstefnu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×