Frakkar sóttu þrjú stig til Amsterdam í kvöld í undankeppni HM 2018 en franska liðið vann þá 1-0 sigur á Hollendingum.
Frakkar eru því með sjö stig og markatöluna 5-1 alveg eins og Svíar sem unnu einnig í kvöld. Bæði lið gerðu jafntefli í fyrsta leik en hafa síðan unnið tvo leiki í röð.
Það var Paul Pogba, leikmaður Manchester United og dýrasti knattspyrnumaður heims, sem skoraði eina mark leiksins strax á 30. mínútu.
Paul Pogba skoraði þá eftir undirbúning Dimitri Payet en þeir voru báðir í aðalhlutverki síðasta sumar á EM og skoruðu meðal annars báðir í sigrinum á Íslandi í átta liða úrslitunum.
Paul Pogba skoraði markið sitt með skoti af mjög löngu færi sem Maarten Stekelenburg réð ekki við í hollenska markinu. Skotið var fast en Stekelenburg átti þó að gera mun betur.
Frakkar voru sterkara liðið og átti sigurinn skilið. Hollendingar reyndu að sækja meira í seinni hálfleik en jöfnunarmarkið kom ekki og Frakkar fóru heim með öll stigin.
Negla frá Pogba tryggði Frökkum öll stigin í kvöld | Sjáðu mörkin
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar