Innlent

Gústaf harðorður í garð formanns ÍÞ

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Gústaf Adolf Níelsson.
Gústaf Adolf Níelsson. Vísir/Pjetur
„Þú getur ekki ýtt hripleku skipi úr höfn með handónýtan skipstjóra þótt áhöfnin sé góð. Þá fer allt til fjandans,“ segir Gústaf Níelsson um Helga Helgason, formann Íslensku þjóðfylkingarinnar. Gústaf og Gunnlaugur Ingvarsson, oddvitar flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum, drógu framboð sín til baka í gær.

Gústaf segir Helga hafa fallist á að víkja úr formannsembætti í september að beiðni oddvitanna en það hafi hann aldrei gert. „Hann getur ekki tekið ákvörðun, þessi maður. Það er ekki hægt að vinna með honum. Hann kann engin vinnubrögð,“ segir Gústaf.

Ákvörðunina segir hann ekki hafa verið létta. „Það er mjög leiðinlegt að þetta skuli þróast með þessum hætti því það er fjöldi fólks sem er búið að leggja nótt við dag til að vinna að þessum hugsjónum í mjög óeigingjörnu starfi.

Þá stefna þeir Gústaf og Gunnlaugur ekki á að bjóða fram undir öðru nafni. Þó geti þeir ekki stutt flokkinn að óbreyttu.

Í yfirlýsingu sem Helgi sendi frá sér í gær segir að Gústaf hafi hótað því að drepa framboðið fái hann ekki vilja sínum framgengt. 

„Einna helst virtist sem að sumir gætu ekki sætt sig við þá stöðu sem þeir höfðu innan flokksins. Þeir áttu með öðrum orðum erfitt að ganga í takt við ákvarðanir stjórnarflokksins og jafnvel stefnu,“ segir einnig í yfirlýsingunni. Jafnframt fullyrðir Helgi að ákvörðun oddvitanna hafi ekki áhrif á framboð flokksins í kjördæmunum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×