Fótbolti

Ragnar: Lít á alla heimaleiki sem skyldusigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnar kann vel við sig í London.
Ragnar kann vel við sig í London. vísir/eyþór
Ragnar Sigurðsson segist kunna vel við sig hjá Fulham en hann gekk til liðs við enska B-deildarliðið í ágúst. Hann er ánægður með fyrstu vikurnar hjá nýja liðinu.

„Þær hafa verið frábærar, ég er að fíla þetta í botn. Það vita allir að London er frábær borg. Við Ragga, unnusta mín, höfum verið svolítið einangruð í Rússlandi. Núna á ég allt í einu fullt af vinum aftur,“ sagði Ragnar í léttum dúr í samtali við Tómas Þór Þórðarson á æfingu landsliðsins í Egilshöll í kvöld.

„Það er frábært að það sé töluð enska og maður skilji og geti tjáð sig, að maður geti farið á veitingastað og pantað mat án þess að verði misskilningur. Ég tala nú ekki um allt sem er hægt að gera þarna, lífið og menningin þarna er frábær,“ bætti Ragnar við.

Miðvörðurinn hefur spilað síðustu fimm deildarleiki Fulham og virðist vera búinn að festa sig í sessi í liðinu. Ragnar segir að leikstíllinn á Englandi henti sér vel.

„Þetta er geðveikur bolti. Það hefur alltaf verið sagt um mig að ég ætti að spila í ensku deildinni. Það er mikill hraði og kraftur í þessari deild og minn leikstíll hefur verið svolítið þannig í gegnum árin. Ég fíla þetta,“ sagði Ragnar.

Framundan hjá íslenska liðinu er tveir heimaleikir gegn Finnlandi og Tyrklandi í undankeppni HM 2018. Nokkuð er um meiðsli í íslenska liðinu og Ragnar segir að nú geti reynt á breiddina í hópnum.

„Við vonum að allir verði komnir í stand á fimmtudaginn. Við höfum verið mjög heppnir með meiðsli og nánast spilað á sama liðinu í nokkur ár. Núna reynir kannski aðeins á breiddina en við erum með frábæran hóp og erum ekkert áhyggjufullir. Það kemur maður í manns stað í fótbolta og það vita allir hvað þeir eiga að gera. Mér líst vel á þetta,“ sagði Ragnar. En lítur hann á leikinn gegn Finnum sem skyldusigur?

„Ég er farinn að líta á alla heimaleiki sem skyldusigur. Það skiptir eiginlega ekki máli við hverja við spilum, nema ef það er Þýskaland eða eitthvað svoleiðis. Eins og Heimir [Hallgrímsson, landsliðsþjálfari] sagði áðan erum við í dauðafæri að ná góðri byrjun,“ sagði Ragnar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×