Erlent

Rússar sagðir hafa fjölgað verulega í herliði sínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Hmeimim, herstöð Rússa í Sýrlandi.
Frá Hmeimim, herstöð Rússa í Sýrlandi. Vísir/AFP
Rússar eru sagðir hafa fjölgað verulega í herliði sínu í Sýrlandi frá því að vopnahléinu lauk fyrir nærri því tveimur vikum. Fleiri hermenn hafa verið sendir sem og flugvélar og hafa Rússar komið háþróuðum loftvarnarkerfum fyrir í landinu.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni hafa birgðaflutningar frá Rússlandi til Sýrlands tvöfaldast á tveimur vikum. Fjöldi rússneskra herskipa hefur siglt frá Svartahafinu inn í Miðjarðarhaf á tímabilinu.

Þá hafa Rússar einnig ákveðið að senda flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov til Miðjarðarhafsins auk þriggja freigátna.

Yfirlit yfir herafla Rússa í Sýrlandi.Vísir/GraphicNews
Rússar sendu upprunalega hluta flughers síns til stuðnings Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, fyrir um ári síðan. Þá átti Assad verulega undir högg að sækja vegna framgöngu uppreisnarhópa.

Undanfarnar tvær vikur hafa gífurlega þungar loftárásir verið gerðar á borgina Aleppo og er talið að þær séu með þeim þyngstu í styrjöldinni sem hefur staðið yfir í fimm og hálft ár. Minnst 300 þúsund manns hafa látið lífið og milljónir hafa yfirgefið heimili sín.

Frá því að vopnahléið var afnumið í síðasta mánuði hefur samband Bandaríkjanna og Rússlands súrnað verulega. Bandaríkjamenn voru sagðir vera að íhuga að herða refsiaðgerðir sínar vegna árásanna á Aleppo og því hefur verið haldið fram að þeir hafi verið að skoða möguleika á að gera loftárásir gegn Assad. Hingað til hafa þeir eingöngu einbeitt sér að Íslamska ríkinu.

Það að Rússar hafi nú komið upp loftvarnarkerfum í vesturhluta Sýrlands eru sterk skilaboð til Bandaríkjanna um að slíkar loftárásir verði ekki liðnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×