Innlent

PES bauð hærra en EA Sports: „Það er ekkert verið að tala um neina tugi milljóna“

Birgir Olgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Vísir/Vilhelm
Knattspyrnusamband Íslands gerði samning við japanska tölvuleikjaframleiðandann Konami um réttindin að íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu fyrir fótboltaleikinn Pro Evolution Soccer 2016 (PES).

Í apríl síðastliðnum var gerð uppfærsla á leiknum vegna Evrópumótsins í Frakklandi síðastliðið sumar. Íslenska liðið keppti á því móti en Konami gerði þá samkomulag við evrópska knattspyrnusambandið UEFA um að fá að hafa mótið í sínum leik og þurfti þá einnig að gera samning við knattspyrnusamböndin sem áttu lið á mótinu.

Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður karlalandsliðsins frá upphafi, deildi tíðindum dagsins með fylgjendum sínum á Twitter.

Þar á meðal var íslenska landsliðið en Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir Konami hafa boðið betur en EA Sports en fréttir hafa verið sagðar af því í dag að KSÍ hefði hafnað tilboði EA Sports um að vera í FIFA 17 sem er væntanlegur í verslanir á næstu vikum.

Sjá einnig: KSÍ sagði nei takk við FIFA 17: Tilboð EA Sports nam um einni milljón króna

Geir Þorsteinsson sagði við Vísi fyrr í dag að aðilar frá EA Sports hefðu haft samband við KSÍ í ágúst síðastliðnum að verið væri að leggja lokahönd á FIFA 17 leikinn en þeir vildu ná íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu inn í leikinn á lokametrunum. Geir sagði tilboð EA Sports hafa verið of lágt, í fyrstu sagði Geir við Vísi að tilboðið hefði numið um einni milljón króna en í samtali við RÚV síðar í dag sagði hann tilboðið hafa numið á aðra milljón króna. Viðræður KSÍ við EA Sports hefðu siglt í strand og því verður liðið ekki í FIFA 17.

En eins og áður segir náðust samningar á milli KSÍ og Konami um réttindin að liðinu í PES. Aðspurður hvað Konami greiddi fyrir réttindin segir Geir það hafa verið hærra en það sem EA Sports bauð.

Er verið að tala um nokkrar milljónir eða tugi milljóna?

„Það er ekkert verið að tala um neinar tugi milljóna,“ svarar Geir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×