Innlent

Katla lætur vita af sér

Snærós Sindradóttir skrifar
Sigketill í Kötlu.
Sigketill í Kötlu. vísir/haraldur Guðjónsson
Skjálfti um 3,9 á Richter mældist í sunnanverðri Kötluöskjunni í gær. Skjálftinn er sá stærsti í nokkrar vikur en mikil virkni stórra skjálfta hefur verið í Kötlu undanfarið. Þann 29. ágúst mældust stærri skjálftar, eða 4,5 og 4,6 á Richter. Það voru sterkustu skjálftar sem höfðu fundist í Kötlu síðan 1977.

Magnús Tumi Guðmundssonvísir/stefán
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segist þó ekki missa svefn yfir Kötlu. „Það hafa komið óvanalega stórir skjálftar og nokkuð margir þeirra yfir stærðinni 3. Hvað það þýðir er önnur saga. Þetta eru frekar grunnir skjálftar en maður myndi vilja sjá fleiri merki um virkni, merki um útþenslu og hugsanlegan jarðhita. Ef við sæjum það allt saman þá væri það greinilegt merki um að eldstöðin sé að hitna.“

Magnús segir að jafnvel þó allar þær vísbendingar kæmu saman væri ekki víst að Katla færi að gjósa. „Við verðum að álíta sem svo að Katla sé tilbúin að gjósa. En þegar hún gaus síðast 1918 þá voru engir mælar í landinu til að mæla virkni sem við erum að sjá núna. Það er óvissa um hversu mikill aðdragandinn er. Við eigum alltaf að vera viðbúin því að hún fari að gjósa en eigum ekki alltaf að hafa áhyggjur af henni.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×