Innlent

Engin staðfest ummerki um innbrot í tölvu fyrrum forsætisráðherra

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. vísir/ernir
Rekstrarfélag stjórnarráðsins fann engin staðfest ummerki um að brotist hafi verið í tölvu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra. Kjarninn greinir frá.

Sigmundur Davíð hélt því fram í ræðu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins um helgina að brotist hafi verið inn í tölvuna sína. Þá sagðist hann hafa látið öryggisfulltrúa í stjórnarráðinu fara yfir tölvuna og að þar hafi fundist merki um að reynt hafi verið að brjótast inn.

Vísir greindi frá því fyrr í dag að embætti ríkislögreglustjóra hafi ekki verið tilkynnt um innbrot í tölvu fyrrverandi forsætisráðherra.

Engin staðfest ummerki fundust um það að innbrot hafi átt sér stað í tölvu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra, við ítarlega skoðun rekstrarfélags stjórnarráðsins.

Þann 1. apríl óskaði Sigmundur Davíð eftir því við rekstrarfélag stjórnarráðsins að tölvan hans yrði skoðuð vegna „rökstudds gruns hans um mögulegt innbrot“ í tölvuna.

„Rekstrarfélag Stjórnarráðsins sér um rekstur staðarnets Stjórnarráðsins og þjónustar þær útstöðvar sem tengjast því, tölva forsætisráðherra er þar á meðal. Rekstrarfélagið sér einnig um tölvuöryggismál Stjórnarráðsins. Þann 1.apríl 2016 barst félaginu beiðni frá forsætisráðherra um að skoða tölvu ráðherra vegna rökstudds gruns hans um mögulegt innbrot. Við ítarlega leit fundust ekki staðfest ummerki að innbrot hafi átt sér stað,“ segir Guðmundur Halldórs Kjærnested, framkvæmdastjóri rekstrarfélagsins, í svari við fyrirspurn Kjarnans.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×