Innlent

Innbrotið í tölvu Sigmundar Davíðs verður stöðugt dularfyllra

Jakob Bjarnar skrifar
Sigmundur Davíð hefði átt að tilkynna og láta skrá og láta rannsaka tilraun sem hann segir að hafi verið gerð til að brjótast inn í tölvu hans.
Sigmundur Davíð hefði átt að tilkynna og láta skrá og láta rannsaka tilraun sem hann segir að hafi verið gerð til að brjótast inn í tölvu hans. visir/vilhelm
„Eðlilegt hefði verið að hann hefði kallað til samráðs hóp sem hefur eitthvað með öryggismál ríkisins að gera og léti fara yfir þetta. Það eru alvarleg tíðindi þegar reynt er að brjótast inn í tölvu forsætisráðherra,“ segir Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur.

Fullyrðingar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins á Akureyri um helgina, þess efnis að tölvuþrjótar hafi reynt að brjótast inn í tölvu hans, eru stöðugt að fá á sig dularfyllri blæ. Sigmundur Davíð sagðist vita þetta því hann hafi látið athuga það fyrir sig. Og hann taldi víst hverjir væru þar á ferð, kröfuhafarnir.

En, samkvæmt Rekstrarfélagi stjórnarráðsins fundust engin ummerki um slíkt. Og samkvæmt ríkislögreglustjóra hefur engin kæra þess efnis borist. Sem Sigurbjörg segir að hefði verið hið eðlilega í stöðunni.

Sigurbjörg furðar sig á því að ekki hafi verið látið kanna nánar tilraun til að brjótast inn í tölvu forsætisráðherra þjóðarinnar.Vísir
„Það hefði verið eðlilegt að hann hefði greint frá því þegar og látið rannsaka þetta,“ segir Sigurbjörg. Hún segir jafnframt að óeðlilegt sé að taka slíku með léttvægum hætti. Þeir sem gegna stöðum sem snúa að öryggi ríkisins, eru að höndla með málefni sem þurfa að fara leynt meðan þau eru á ákvörðunarstigi, þeim ber að taka slíkt alvarlega. Og þeim ber að láta skrá slík tilvik.

Sigurbjörg segir aðgerðaráætlun verða að vera til staðar, sem snúi að slíkum málum. Ef ráðamenn verða þess varir að reynt sé að hakka sig inn á tölvur sínar, þá sé það mál sem eðlilegt sé að skoða af fullri alvöru.

Vísir reyndi að ná í Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmann þáverandi forsætisráðherra, þá til að inna hann eftir því hvers vegna þetta hafi ekki verið tilkynnt og/eða kært, en án árangurs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×