Bíó og sjónvarp

Ófærð II frumsýnd 2018: Yrsa og Margrét bætast við handritsteymið

Birgir Olgeirsson skrifar
Ilmur Kristjánsdóttir snýr aftur í Ófærð 2.
Ilmur Kristjánsdóttir snýr aftur í Ófærð 2. Vísir/RVKStudios
Ríkisútvarpið hefur skrifað undir samning við RVK Studios um aðra þáttaröð af Ófærð. Greint var frá málinu í Hollywood Reporter en þar segir að þættirnir í annarri seríu verði tíu talsins en fyrsti þátturinn verður frumsýndur haustið 2018.

Í samtali við Hollywood Reporter segist Baltasar Kormákur, einn af höfundum Ófærðar, vera spenntur að geta komið hópnum saman sem stóð að fyrstu seríunni.

„Sögunni er langt því frá lokið. Það er margt óuppgert, bæði hvað varðar sögusviðið og það sem varðar aðalpersónur fyrri seríunnar. Ég held að margir vilji kynnast þeim betur.“

Ólafur Darri Ólafsson, Bjarne Henriksen, Ingvar E. Sigurðsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir og Björn Hlynur Haraldsson munu snúa aftur til að leika í annarri þáttaröðinni.

Þættirnir eru byggðir á hugmynd Baltasars Kormáks en um handritagerð sjá Sigurjón Kjartansson og Clive Bradley en tilkynnt var í dag að Yrsa Sigurðardóttir og Margrét Örnólfsdóttir hefðu bæst við handritsteymið. Framleiðendur þáttanna verða þeir Baltasar Kormákur og Magnús Viðar Sigurðsson.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×