Lífið

„Morðingi“ í Ófærð: „Nú bíð ég eftir símtölum frá mínu fólki sem ég hef þurft að blekkja í marga mánuði“

Atli Ísleifsson skrifar
Síðustu þættir Ófærðar voru sýndir í kvöld.
Síðustu þættir Ófærðar voru sýndir í kvöld.
„Síðustu mánuðir hafa verið mjög dularfullir, forvitnilegir. Fólk náttúrulega spyr mikið og ég hef fengið að æfa „lygavöðvann“ mjög mikið. Ég hef aldrei verið neitt dugleg að þegja yfir leyndarmáli í lífinu. Það tókst hins vegar núna,“ segir leikkonan sem fór með hlutverk „morðingja“ í þáttunum Ófærð.

Síðustu þættir þáttaraðarinnar voru sýndir í kvöld.

Leikkonan segir engan af hennar nánustu hafa raunverulega vitað af því hvernig hún tengdist morðunum í þáttaröðinni. „Nú bíð ég eftir símtölum frá mínu fólki sem ég hef þurft að blekkja í marga mánuði.“

Leikkonan segist hafa horft á þáttinn með manninum sínum í kvöld. „Hann var reyndar sá eini í kringum mig sem vissi þetta. Hann var viðstaddur þegar ég fékk þær fréttir að ég væri morðinginn. Ég var að keyra í heim í bíl þegar Sigurjón [Kjartansson handritshöfundur] hringir tilkynnir mér það að ég sé morðinginn. Ég sprakk þá úr hlátri og maðurinn minn lagði saman tvo og tvo.“

Leikkonan segist hafa frétt af því að hún færi með hlutverk „morðingja“ rétt fyrir tökur á síðustu atriðum þáttaraðarinnar  í febrúar, mars í fyrra. „Ég hef því þurft að þaga yfir þessu í heilt ár. Þeir voru hins vegar svo sniðugir að maður gat alltaf skýlt sér á bakvið það að maður gat alltaf sagt að bara „morðinginn“ vissi og enginn annar. Ég gat því alltaf sagt að ég vissi ekkert þegar ég fékk spurningarnar. Það var því „go-to“ setningin hjá manni.“

Hún segir það hafa verið æðislega og mikla lífsreynslu að hafa fengið að taka þátt í verkefninu og sjá vinnuna birtast á skjánum.

„Og með þetta góðum árangri. Ég fékk einmitt skilaboð frá leikstjóranum við upphaf þáttarins. „Nú verður áhugavert að vera þú næstu daga,“ sagði hann,“ segir leikkonan að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×