Innlent

Finnur lætur engan bilbug á sér finna en fær kaldar kveðjur frá Jóni Gunnarssyni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Finnur Árnason og Jón Gunnarsson.
Finnur Árnason og Jón Gunnarsson. vísir
Finnur Árnason forstjóri Haga lætur engan bilbug á sér finna í færslu á Facebook-síðu sinni sem hann setti inn í hádeginu í dag en færsla hans frá því í gær um búvörusamningana og það að þeir innihaldi ríkisstyrkt dýraníð hefur vakið hörð viðbrögð bænda, eins og Vísir greindi frá í morgun.

Í færslu sinni í dag segir Finnur:

„Af gefnu tilefni: Þegar búvörusamingar voru samþykktir af 19 þingmönnum á alþingi fyrr í vikunni, var breytingartillaga Bjartrar framtíðar um að styrkir féllu niður til þeirra sem stunduðu dýraníð felld. Hvað segir það um afstöðu þingmanna og þeirra sem stóðu að búrvörusamningnum til dýraníðs? Ég held að flestir bændur og almenningur séu mér sammála um að þessa breytingartillögu átti ekki að fella í þinginu.“

Með fylgir svo linkur á frétt mbl.is um niðurstöðu atkvæðagreiðslu um búvörusamningana en þar kemur einmitt fram að breytingatillaga minnihluta atvinnuveganefndar um að styrkir féllu niður til þeirra bænda sem verði uppvísir að dýraníð en inn í samningunum er þó ákvæði varðandi heimildir Matvælastofnunar til að svipta bændur styrkjum stundi þeir dýraníð.

Þetta dregur Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar einmitt fram í athugasemd við færslu Finns og vandar forstjóranum í raun ekki kveðjurnar:

„Finnur, það er í góðu lagi að þú hafir eitthvað við afgreiðslu búvörulaga að athuga en ég fer fram á það við þig að þú hallir ekki réttu máli. Þessi skrif þín um dýraníð eru á mjög lágu plani og þér ekki sæmandi. Um viðbrögð við slæmri meðferð á skepnum er fjallað um í lögum um dýravernd og samkvæmt þeim lögum hefur Matvælastofnun mjög víðtækar heimildir til að grípa til við slíkar aðstæður. Við afgreiðslu búvörulaga nú bættum við inn heimild til stofnunarinnar til að svipta bændur beingreiðslum sem enn eitt úrræðið ef um slæma meðferð á dýrum er að ræða. Þetta er því samspil þessara tveggja lagabálka og ákvæðið var unnið sameiginlega af lögfræðingum ráðuneytisins og Alþingis. Það er oft þannig að einhverjir reyna síðan að slá pólitískar keilur með breytingartillögum eins og gerðist í þessu tilfelli. Það er margt annað sem ég hef að athuga við málflutning þinn sem allur miðast við hagsmuni þess fyrirtækis sem þú rekur og vill geta stundað óheftan innflutning á búvörum. Þannig er það ekki hjá neinni þjóð sem við berum okkur saman við. Á þessu kjörtímabili hafa verið stigin stærri skref í framþróun á skipulagi þessara mála en nokkur sinni fyrr. Þú heldur því stöðugt fram að samningurinn sé bundinn til 10 ára, það er alrangt eins og ég held að þú vitir. Það er mikilvægt að um þessi mál eigi sér stað opin heiðarleg umræða en ekki innihaldslausir sleggjudómar,“ segir í athugasemd Jóns.

Uppfært: Í Facebook-færslu Finns kemur fram að breytingatillaga um að fella niður styrki til þeirra sem stunda dýraníð hafi komið frá Bjartri framtíð. Hið rétta er að breytingatillagan var lögð fram minnihluta atvinnuveganefndar sem Björt framtíð er vissulega hluti af. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×