Innlent

Gengið frá framboðslistanum í dag

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Páll Magnússon var kjörinn í efsta sæti listans.
Páll Magnússon var kjörinn í efsta sæti listans. Vísir
Kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fundar á Selfossi klukkan þrjú í dag. Þar er stefnt að því að ganga endanlega frá framboðslista fyrir Alþingiskosningarnar.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins var haldið um síðustu helgi og fór Páll Magnússon með sigur af hólmi í prófkjörinu. Þingmennirnir Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason skipuðu svo 2. og 3. sæti. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, bauð sig fram í fyrsta sæti en endaði því í fjórða og ákvað í kjölfarið að hætta í stjórnmálum. Unnur Brá Konráðsdóttir þingmaður lenti í fimmta sæti.

Þrír karlar voru því í efstu sætum prófkjörsins og hefur verið þrýst á að lista flokksins verði breytt til þess að tryggja að ekki eingöngu karlar myndu sitja í efstu sætunum. Útilokaði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður flokksins ekki að það yrði gert og benti á að niðurstöður prófkjara væri ekki bindandi.

Páll Magnússon sagði það umhugsunarefni og jafnvel áhyggjuefni að í efstu þremur sætum listans séu karlar. Hann sagðist þó ekki vita hvaða rök gætu staðið til þess að breyta niðurstöðunni sem fékkst í prófkjörinu.


Tengdar fréttir

Sjálfstæðiskonur guldu afhroð

Úrslit prófkjara Sjálfstæðisflokksins verða ræddar á fundi í dag. Formaður flokksins útilokar ekki að niðurstöðum verði breytt. Iðnaðaráðherra hættir í stjórnmálum. Þingkonur í Samfylkingu hverfa af Alþingi.

Þungar áhyggjur og þórðargleði eftir afhroð Sjálfstæðiskvenna

Niðurstöður úr prófkjörum Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi hafa vakið mikla athygli fyrir þær sakir hversu lélega kosningu þær konur sem buðu sig fram hlutu. Þannig eru karlar í efstu fjórum sætum flokksins í Suðvesturkjördæmi og hlýtur Elín Hirst þingkona afleita kosningu en hún kemst ekki í efstu sex sætin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×