Fótbolti

Pólverjar misstu niður 2-0 forskot gegn Kasakstan á sjö mínútum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Robert Lewandowski skoraði að sjálfsögðu en það var ekki nóg.
Robert Lewandowski skoraði að sjálfsögðu en það var ekki nóg. vísir/getty
Kasakstan gerði frábærlega í að stela stigi af Póllandi í fyrsta leik liðanna í E-riðli undankeppni HM 2018 en Pólland komst í 2-0 í fyrri hálfleik.

Flestir bjuggust við öruggum sigri Pólverja sem komust í átta liða úrslit á EM í sumar en Kasakstan varð í næst neðsta sæti síns riðils í undankeppninni með aðeins fimm stig. Það var í riðli með Íslandi.

Bartosz Kapustka kom Póllandi yfir strax á níundu mínútu og eftir 35 mínútur fengu gestirnir vítaspyrnu. Það þurfti ekkert að spyrja að því hver færi á vítapunktinn, að sjálfsögðu Robert Lewandowski.

Bayern-maðurinn, sem var markahæsti leikmaður síðustu undankeppni, skoraði og kom Pólverjum í 2-0 en hann er nú búinn að skora í sex leikjum í röð í undankeppnum.

Staðan var 2-0 í hálfleik en Pólverjar fóru heldur betur illa að ráði sínu í seinni hálfleiknum þar sem þeir misstu niður forskotið.

Sergei Khizhnichenko, sem yfirgaf stórliðið Astana í heimalandinu í sumar, skoraði tvívegis á sjö mínútna kafla (51. og 58. mínútu) og jafnaði metin fyrir Kasakstan. Pólverjar náðu ekki að svara því og fengu aðeins eitt stig.

Í sama riðli vann Danmörk 1-0 sigur á Armeníu en meira má lesa um það hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×