Lífið

Æstir aðdáendur Bieber þegar mættir á tónleikana

Jakob Bjarnar skrifar
Bieber-æðið magnast og eru tónleikagestir þegar mættir á svæðið, á tónleika sem eru annað kvöld.
Bieber-æðið magnast og eru tónleikagestir þegar mættir á svæðið, á tónleika sem eru annað kvöld. vísir
Spennan fyrir tónleikum Justin Biebers, sem verða annað kvöld og á föstudagskvöld virðist óbærileg meðal helstu aðdáenda ungstirnisins. Ungir aðdáendur goðsins eru þegar mættir í Kórinn þar sem til stendur að halda tónleikana.

Ísleifur B. Þórhallsson tónleikafrömuður hjá Senu lýsti þessu í Bítinu á Bylgjunni:

„Krakkarnir eru byrjaðir að mæta í Kórinn. Ég vil biðja krakka að vera rólegir og biðla til foreldra að segja börnum sínum að vera rólegir. Krakkar eru mættir, reyna að komast inn og svona,“ segir Ísleifur og vill nú rifa seglin varðandi það Bieberæði sem kynnt hefur verið undir undanfarnar vikurnar.

„Og við erum að heyra af umræðum á netinu um að einhverjir ætli að koma í kvöld og tjalda fyrir utan. Og ég vil koma þeim boðum áleiðis að það er ekkert mjög sniðugt að leyfa krökkunum að gera það. Að koma inn í Kór og setja upp tjald og eitthvað svona rugl. Ég efast um að við getum leyft það.“

Bieber er væntanlegur til landsins í dag og víst er að þeir sem eiga miða á tónleikana mega vænta mikils sjónarspils, ef marka má Ísleif, sem segist aldrei hafa séð aðra eins umgjörð um nokkra tónleika.

Allir gestir á tónleika Biebers geta farið frítt með strætó á höfðuðborgarsvæðinu eftir klukkan 14 gegn framvísun miða á tónleikana. Er þetta gert til að reyna að forða umferðaröngþveiti í Kópavogi en gert er ráð fyrir 35 þúsund tónleikagestum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×