Innlent

Fæðingarorlof: Hámarksgreiðslur hækki í 600 þúsund krónur

Atli Ísleifsson skrifar
Fyrstu mánuðirnir eru mikilvægir í lífi barns.
Fyrstu mánuðirnir eru mikilvægir í lífi barns. Vísir/Getty
Miðað er við að hámarksgreiðsla í fæðingarorlofi hækki úr 370 þúsund krónur á mánuði í 600 þúsund samkvæmt drögum félags- og húsnæðismálaráðherra á frumvarpi til breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Ráðherra hefur lagt drögin fram til umsagnar.

Í frétt á vef stjórnarráðsins segir að samkvæmt drögunum munu foreldrar fá fyrstu 300 þúsund krónurnar af viðmiðunartekjum óskertar og 80 prósent af þeim viðmiðunartekjum sem eru umfram 300 þúsund krónum á mánuði. Samkvæmt gildandi lögum fær foreldri fæðingarorlofsgreiðslur sem nema 80 prósent af meðaltali heildarlauna á tilteknu tímabili, en þó aldrei hærri upphæð en 370 þúsund krónur á mánuði.

Þá segir að kveðið sé á um að samanlagt fæðingarorlof foreldra á vinnumarkaði verði lengt úr níu mánuðum í tólf. „Gert er ráð fyrir að lengingin taki gildi í áföngum á árunum 2019, 2020 og 2021. Þegar lengingin er að fullu komin til framkvæmda er miðað við að hvort foreldri um sig geti átt rétt til fimm mánaða fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks en að sameiginlegur réttur foreldra verði tveir mánuðir.“

Efni frumvarpsins byggist á tillögum starfshóps sem ráðherra skipaði í lok árs 2014 til að móta framtíðarstefnu stjórnvalda í fæðingarorlofsmálum. „Helstu markmið þeirra breytinga sem kveðið er á um í frumvarpinu eru að tryggja börnum samvistir við báða foreldra sína, jafnframt því að gera foreldrum betur kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Í þessu skyni er áhersla lögð á að raska sem minnst tekjum heimila þegar foreldrar leggja niður störf í fæðingaroflofi til að annast börn sín,“ segir í frétt ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×