Lífið

Sterkasti maður heims: Hafþór flaug í úrslitin með heimsmeti

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hafþór Júlíus heldur uppi heiðri Íslendinga í keppninni um sterkasta mann heims.
Hafþór Júlíus heldur uppi heiðri Íslendinga í keppninni um sterkasta mann heims. Vísir/Samsett
Kraftajötuninn Hafþór Júlíus Björnsson gerði sér lítið fyrir og setti heimsmet á leið sinni í úrslit keppninnar um sterkasta mann heims sem nú fer fram í Botswana í Afríku. Keppni hófst í undanrásum á laugardaginn og komst Hafþór auðveldlega áfram. Úrslitakeppnin fer fram á föstudag og laugardag og kemur þá í ljós hver verður krýndur heimsins sterkasti maður.

Hafþór gerði sér lítið fyrir og sigraði í fimm af þeim sex greinum sem keppt var í í undanrásum. Setti hann heimsmet í kútakasti þegar hann kastaði 15 kílógramma kúti 7,15 metra í loft yfir rá.

Í samtali við Vísi segir Andri Reyr Vignisson, sem staddur er með Hafþóri í Botswana að Hafþór hafi sigrað með yfirburðum í öllum greinum nema einni í sínum riðli, í svokallaðri bílalyftu, þar sem hann hafi ákveðið að spara sig fyrir aðrar greinar.

Keppt var í fimm riðlum í undanrásum og komust tveir efstu úr hverjum riðli í úrslitin. Ari Gunnarsson, sem einnig tekur þátt fyrir Íslands hönd, lenti í þriðja sæti í sínum riðli og var grátlega nærri því að komast í úrslitin. Var hann í afar erfiðum riðli og atti meðal annars kappi gegn Laurence Shahlaei, sterkasta mann Evrópu.

Hafþór hefur verið afar nærri því að sigra í keppninni undanfarin fjögur ár en hann hefur alls keppt fimm sinnum, þrisvar lent í þriðja sæti og einu sinni í öðru sæti. Keppnin, nú sem endranær, er firnasterk og þarf Hafþór að sigra ríkjandi meistara, Bandaríkjamanninn Bryan Shaw, ætli hann sér að feta í fótspor Jóns Páls Sigmarssonar og Magnúsar Vers Magnússonar sem staddur er í Botswana sem sérfræðingur breskrar sjónvarpsstöðvar sem fjallar um mótið.

Sigurhefð Íslendinga er mikil í keppninni um sterkasta mann heims en Jón Páll Sigmarsson vann keppnina á árunum 1984, 1986, 1988 og 1990 áður en að Magnús Ver tók við kyndlinum og sigraði í keppninni 1991, 1994, 1995 og 1996 en tuttugu ár eru síðan Íslendingur var krýndur sterkasti maður heims.

Keppni í úrslitum fer svo fram föstudag og laugardag en keppendur fá hvíld þangað til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×